10.05.1918
Efri deild: 16. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 572 í B-deild Alþingistíðinda. (429)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Magnús Kristjánsson:

Þessi brtt., á þgskj. 70, er fram komin fyrir þá sök, að jeg lít svo á, að lögin um lokunartíma sölubúða sjeu ekki sett til þess að baka vissum mönnum atvinnuhnekki, heldur til hins, að gera það mögulegt í kaupstöðum, þar sem stór meiri hluti kaupmanna kemur sjer saman um einhvern tiltekinn lokunartíma, að því fáist framgengt með samþyktum, enda þótt einn eða fleiri sjervitringar vildu skerast úr leik og halda opnu fram á nætur.

Til þessa hygg jeg að lögin sjeu, að örlítill minni hluti geti ekki þvingað stóran meiri hl. eftir vild sinni.

Nú er svo ástatt hjer í Reykjavík, að samþykt hefir verið sett um þetta efni, og er í henni öllum gert að skyldu að loka búðum sínum kl. 7 að kvöldi. En nú hefir það komið í ljós, að nokkrar verslanir hjer, þær sem versla aðallega með tóbak og sælgæti, eru óánægðar með ákvæði þetta, sem gekk í gegn hjá bæjarstjórninni með að eins 1 atkvæðis meiri hluta. Enda liggur það í augum uppi, að ákvæði þetta er óhagkvæmt fyrir verslanir þessar, sem aðallega versla síðari hluta dags, þegar fólk er hætt störfum sínum. Hefir þeim því verið haldið opnum til kl. 10 — 11, og mun það regla í flestum löndum, að slík verslun eigi sjer stað að kvöldinu, er menn ljetta sjer upp eftir hita og þunga dagsins.

Annað er það líka, sem gerir það, að full ástæða er til að koma inn í lögin þessu undantekningarákvæði, það, að ef svo færi, að þessi sami lokunartími yrði ákveðinn fyrir allar verslanir, þá mundi salan á vörum þessum flytjast til; menn yrðu sviftir atvinnu sinni og salan færðist yfir í kaffihúsin. En nú virðist þar áskipað og engu á bætandi, og mun gróði þeirra vera sæmilegur. Það væri því rangsleitni að svifta þessa menn gróðanum og leggja hann í annara hendur.

Það hefir verið notað sem ástæða fyrir ákvæðinu um sama lokunartíma alstaðar, að það væri gert til þess að tryggja verslunarþjónunum, að þeim yrði ekki misboðið með óhæfilega löngum starfstíma. En nú er því þannig háttað, að starfstíma þeirra, sem við slíkar verslanir eru, er venjulega tvískift, og starfa þeir því ekki nema 5—6 tíma á dag. Þeir verslunarmenn hafa því jafnvel meira frjálsræði en aðrir verslunarmenn.

Nú hefir verslunarmannafjelagið hjer tjáð sig fylgjandi því, að undantekning verði gerð með þessar verslanir, og kaupmannafjelagið hefir ekki heldur fundið neina ástæðu á móti því, að annar lokunartími yrði ákveðinn fyrir þær. Það getur ekki heldur að neinu leyti komið öðrum verslunum að baga, þar sem um aðrar vörutegundir er að ræða. Og þegar nú verslunarmannafjelagið og kaupmannafjelagið eru þessu ákvæði fylgjandi, þá get jeg ekki sjeð, að það sje rjett af háttv. þingi að setja sig á móti því.

Jeg treysti því þess vegna, að þessi háttv. deild samþykki ákvæði þetta, sem ekki er neinum til baga, en stórum flokki manna til bóta, þar sem atvinna þeirra mundi eyðileggjast, ef það næði ekki fram að ganga.

Frá sjónarmiði Reykjavíkur er ekki hægt að álíta annað en að bæjarstjórnin mundi verða hlynt þessu ákvæði, þar sem gert er ráð fyrir, að verslanir þessar greiði talsverðan skatt í bæjarsjóð fyrir undanþáguna. Og til tryggingar því, að sá skattur verði hæfilegur, er ætlast til, að stjórnarráðið ákveði hann fyrir eitt ár í senn. Svo að hvernig sem á er litið, held jeg, að brtt. þessi sje til bóta og frumvarpið muni þá fyrst að fullu gagni koma, ef hún verður samþykt.