10.05.1918
Efri deild: 16. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í B-deild Alþingistíðinda. (430)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Halldór Steinsson:

Jeg vissi ekki af því, að brtt. á þgskj. 85 var á leiðinni, og er því minni ástæða fyrir mig að taka til máls eftir að hún er fram komin. Mál þetta þótti svo sjálfsagt við 1. umr., að ekki þótti þörf á að vísa því til nefndar.

Í lögunum um þetta efni frá síðasta þingi var sú glompa, að sektarákvæði voru engin. En nú lítur út fyrir, að háttv. flutnm. þessa frv. (M. Ó.) hafi viljað bæta fyrir það, svo að um munaði. Jeg lít svo á, að lágmark sektanna sje alt of hátt. Minna má nú gagn gera en að sekta hvern smásala um 100 kr. minst, þótt honum verði það á að halda búð sinni opinni 5 eða 10 mínútur fram yfir ákveðinn lokunartíma. Tildrög þess geta líka oft verið óviðráðanleg. T. d. ef búðin er full af viðskiftamönnum og verið er að afgreiða þá, þá getur það verið ógerningur að reka þá út óafgreidda.

Jeg hefði því helst kosið, að frv yrði sett í nefnd, til þess að athuga betur sektarákvæðið og færa niður lágmarkið frá því sem er í frv. Að vísu á jeg hægra með að sætta mig við brtt. háttv. þm. Vestm. (K. E.), þar sem að eins hámarkið er ákveðið, en ekki lágmarkið, því að ekki ætti dómurum að vera það neitt vorkunnarmál að ákveða sektirnar eftir brotunum.

Brtt. háttv. þm. Ak. (M. K.) get jeg ekki aðhylst. Jeg vona, að hann álíti það samt ekki niðurrifssýki hjá mjer, þótt jeg sje á móti henni. Jeg get ekki sjeð, að nein ástæða sje til undantekningar með sælgætis- og tóbaksverslanir. Því verður ekki neitað, að það eru óþörfustu verslanirnar, og þótt einhverjum hafi orðið það á að gleyma viðskiftum sínum þar, þá er honum ekki vandara um en fátæklingnum, sem kann að hafa gleymt að kaupa sjer matvöru áður en lokað er. Þetta mundi líka raska aðalgrundvelli laganna, sem er sá, að starfstími verslunarmanna verði ákveðinn hinn sami fyrir þá alla, og ef undantekning er gerð um nokkra, þá er hætt við, að fleiri vilji fylgja á eftir. Gjaldið met jeg einkis, því að það mundi koma niður á kaupendum sem verðhækkun. Það yrði því nokkurskonar tóbakstollur, sem að rjettu lagi ætti að renna í landssjóð, en ekki bæjarsjóð. Jeg get ekki sjeð, að þeir, sem þessa verslun reka, yrðu fyrir neinum atvinnuhnekki, því að ef þeir lytu sömu lögum og aðrir, mundu menn venjast á það að eiga viðskifti sín þar á öðrum tíma dagsins og ekki draga þau frekar en viðskifti sín við aðrar verslanir.