16.05.1918
Efri deild: 20. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 579 í B-deild Alþingistíðinda. (436)

25. mál, lokunartími sölubúða í kaupstöðum

Frsm. Magnús Torfason:

Það ætti ekki að þurfa að bæta miklu við nál, sjerstaklega þar sem mál þetta var rætt talsvert við 1. umr.

Nefndin hallast að því að samþykkja 2. brtt. á þgskj 70, en getur ekki fallist á 1. brtt., að lögleiða slíka ákvörðun, sem þar ræðir um. Mundi það vera bein skerðing á valdi bæjarstjórna, eftir lögununum frá 1917.

Samkvæmt 1. brtt. (70) skipar löggjafinn fyrir, að í samþyktinni skuli veita undanþágu gegn árgjaldi, en eftir brtt. nefndarinnar er að eins veitt heimild til þess að gera slíka undanþágu.

Samkvæmt brtt. (70) á stjórnarráðið eitt að ákveða gjaldið fyrir undanþáguna, en eftir brtt. nefndarinnar eiga bæði bæjarstjórnir og stjórnarráð að gera það, og er það í fullu samræmi við heimildarlögin.

Eftir brtt nefndarinnar fellir Alþingi því engan dóm um það, hvort rjett sje að veita undanþáguna eða ekki, en gefur það á vald samþyktarvaldsins.

Virðist það fullkomlega rjett, þegar þess er gætt, að ýmislega stendur á í kaupstöðum landsins. Þessu ákvæði er líka hægara að breyta, ef það stendur að eins í reglugerð, heldur en ef það væri í lögunum sjálfum.

Þá er brtt. á þgskj. 85. (Forseti: Hún er tekin aftur). Að henni þarf þá ekki orðum að eyða, en nefndin tók upp það hámark sektar, sem þar er farið fram á; sömuleiðis hefir hún fært lágmarkið úr 100 kr. niður í 20 kr.

Að lokum vil jeg benda á það, að nái brtt. nefndarinnar fram að ganga, er sjálfsagt að samþykkja 2. brtt. á þgskj. 70.

Skal jeg svo ekki fara frekari orðum um mál þetta að sinni.