03.05.1918
Neðri deild: 15. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Flm (Sigurður Sigurðsson):

Eins og kunnugt er, mæla vegalögin frá 1907 svo fyrir, að viðhald og gæsla Ölfusárbrúarinnar sje kostað af sýslusjóði Árnessýslu, en eftirlitið með viðhaldi flutningabrauta hefir stjórnarráðið á hendi samkvæmt ll.gr. vegalaganna. Er svo fyrir mælt í þeirri grein, að eftirlitinu skuli hagað þannig, að verkfræðingur eða annar hæfur maður skoði vegina — og þá að sjálfsögðu brýrnar um leið, — að minsta kosti annaðhvert ár. Það er því í raun og veru vegamálastjórinn, sem á að hafa eftirlitið á hendi.

Fyrir nokkru fjekk sýslumaðurinn í Árnessýslu símskeyti frá vegamálastjóra, þar sem hann skýrir frá því, að Ölfusárbrúin sje orðin allmjög ryðguð, missigin, viðir mjög fúnir og slitgólf eytt; telur hann viðgerð óhjákvæmilega og áætlar kostnaðinn við hana alt að 10 þús. kr. Þennan mikla kostnað kennir vegamálastjóri því, að orðið hafi dráttur og vanræksla á viðhaldi brúarinnar. Þennan drátt, sem orðið hefir á nauðsynlegu viðhaldi brúarinnar, verður fyrst og fremst að kenna því, að sýslunefndin hefir ekki verið — svo að mjer sje kunnugt — aðvöruð í þessu efni. Og mjer er næst að halda, að engin tilkynning um þörf á viðgerð hafi komið til sýslunefndar síðan brúin var afhent sýslunni. Hjer er því, að áliti okkar flutningsmanna, ekki svo mjög um að kenna vanrækslu sýslunefndar Árnessýslu, heldur afskiftaleysi þeirra, sem bar að líta eftir viðhaldi brúarinnar og tilkynna sýslunefnd, ef aðgerðar þyrfti með. Og af þeirri ástæðu, meðal annars, höfum við flutt þetta frv. á þgskj. 35.

Hins vegar er á það að líta, að fjárhagur sýslunnar er afarþröngur og að hún hefir í mörg horn að líta. Skal jeg víkja nánar að því með fáeinum dæmum.

Útgjöld sýslunnar síðustu 5 ár, — árin 1913 — 1917, — voru áætluð þetta:

Árið 1913 15.580 kr.

Árið 1914 16.186 kr.

Árið 1915 17.658 kr.

Árið 1916 21.000 kr.

Árið 1917 22.465 kr.

Til viðhalds flutningabrautum þessi 5 ár voru samtals veittar 16.500 kr. eða 3.300 kr. til jafnaðar á ári hverju.

Á sama tíma hefir verið varið til sýsluvega í sýslunni 13.520 kr. eða 2.704 kr. til jafnaðar á ári.

Til vegagerða — auk hreppsvega — hefir þá samtals verið varið á tímabilinu 30.020 kr., eða til jafnaðar ár hvert rúmum 6.000 kr.

Sýsluvegagjaldið hefir um mörg ár verið 3 kr., eins og lögin heimila að jafnað sje niður á hvern verkfæran mann. Þetta hefir hvergi nærri hrokkið til. Þess vegna hefir orðið að jafna niður á hreppana stórri fúlgu, sem sífelt eykst með ári hverju. Þessi niðurjafnaða upphæð hefir numið 11—12.000 kr. síðustu árin.

Á síðasta sýslunefndarfundi var áætlað þetta ár til viðhalds flutningabrautum 6.500 kr., og til sýsluvega var gert ráð fyrir um 3.100 kr., eða samtals til flutningabrauta og sýsluvega 9.600 kr. öll útgjöld sýslunnar fyrir árið 1918 hafa verið áætluð 27.000 kr. og þar af jafnað niður 15.000 kr. auk hins lögákveðna sýsluvegagjalds, 3 kr. á hvern verkfæran mann í sýslunni.

Þar sem sýslunefndin á við svo mikla fjárhagslega örðugleika að stríða, og útgjöld sýslunnar aukast stöðugt, þá er ekkert undarlegt við það, þótt sýslunefnd fari fram á þennan styrk til Ölfusárbrúarinnar. Vanrækslan á því að aðvara sýslunefnd um viðgerð á brúnni verður að telja nefndinni til afsökunar. Jeg leyfi mjer svo að leggja til, að frv. sje vísað til fjárveitinganefndar, í fullu trausti til þess, að hún muni öll og óskift komast að þeirri niðurstöðu, að frv. sje rjettmætt og eigi að ná fram að ganga og verða að lögum.