17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Sigurður Sigurðsson:

Vegna þess, að tveir háttv. þm. virðast hafa lagt sig nokkuð í framkróka um það, að mæla á móti till. minni á þgskj. 133, neyðist jeg til þess að segja nokkur orð.

Háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) hafði mikið að athuga við till.; meðal annars vildi hann, að hefði staðið í henni vatnsveitufyrirtæki, í staðinn fyrir áveitufyrirtæki. Þetta er það eina, sem jeg get talið að vissu leyti rjettmætt í aðfinningum hans, en í sjálfu sjer gerir ekkert til, hvort þar stendur vatnsveitufyrirtæki eða áveitufyrirtæki. En hin athugasemdin, að þar hefði heldur átt að standa minni áveitufyrirtæki heldur en meiri, nær ekki nokkurri átt. Setjum svo, að það vanti atvinnu fyrir marga menn, þegar kemur fram í október í haust — segjum 100—200 menn — þá er það ljóst, að miða verður við stórfyrirtæki. Hitt segir sig sjálft, að ekki þurfi að taka þau öll fyrir í einu, heldur nokkurn hluta þeirra, eftir því sem um semur við hlutaðeigendur. Svo segir háttv. þm. (G. Sv.), að það megi ekki byrja á neinu, nema því að eins, að alt verkið sje framkvæmt, og það á skömmum tíma.

Við það er nú í fyrsta lagi það að athuga, að þótt stjórnin semdi við áveitunefndina um nokkurn hluta verksins til dýrtíðarvinnu og notaði það næsta haust, eða 1919, og svo skyldi ófriðnum linna, þá eru miklar líkur til, að verkinu yrði haldið áfram, eða þeim hluta verksins, sem stjórnin hefir ekki tekið að sjer. Það mundu hlutaðeigendur gera sjálfir. Að öðru leyti er það mesta fjarstæða, að ekki megi taka nokkurn hluta af verkinu þegar í haust, þó að hinn hlutinn bíði um sinn.

Háttv. 2. þm. Árn. (E. A.) hjelt því fram, að heimild fyrir stjórnina til þess að taka slík verk sem þetta að sjer felist í ákvæðum 6. gr. frv., eins og hún er orðuð nú, þar sem minst er á, að stjórnin hafi heimild til að verja fje til atvinnubóta, er að framleiðslu lúta, og er jeg honum samdóma um það. En háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) vildi ekki kannast við það og sagði, að hann legði að minsta kosti ekki þann skilning í greinina. En hann er faðir að henni, eins og hún er nú orðuð. Þess vegna finst mjer miklu meiri ástæða til að samþykkja mína brtt., þar sem hún skilgreinir, hvað átt sje við með henni, og heimilar stjórninni að ráðast í slík verk, ef nauðsyn krefur. Hins vegar skal jeg geta þess, þó að orð 6. gr. geti að sjálfsögðu átt við áveitufyrirtæki, að þá er á það að líta, að stjórnin virðist halda því fram, og hefir haldið því fram, að erfitt sje yfir höfuð að ráðstafa atvinnulausu fólki í vinnu nokkuð lengra í burtu. Vitanlega nær þetta ekki nokkurri átt, enda er það engin frágangssök að ráðstafa fólki í vinnu upp í Borgarfjörð eða austur í Árnessýslu. En það er eins og stjórnin álíti, að ekki geti komið til mála að ráðstafa fólki í vinnu annarsstaðar en hjer rjett hjá Reykjavík. Hefi jeg þá ástæðu til að ætla, að hún hafi í huga Hafnarfjarðarveginn, sem byrjað er á, en aldrei skyldi verið hafa. Hitt segir sig sjálft, að það styður meir að framleiðslu að vinna að áveitufyrirtækjum en vegagerð, jafnvel þótt alveg bráðliggi á þeim, en því er ekki að heilsa með Hafnarfjarðarveginn.

Jeg skal ekki fara langt út í það, sem háttv. samþingismaður minn (E. A.) var að tala um heyskap. Það er nú svo, að ef óþurkar ganga, þá myndu þeir ekki sneiða hjá þessum dýrtíðarheyskap stjórnarinnar; við getum sagt það t. d., að í haust gerði frost, sem tók fyrir vinnu og gerði það að verkum, að miklu minna vanst í dýrtíðarvinnunni. Þessu og öðru eins verða menn að taka með jafnaðargeði, og hittir það auðvitað alveg eins dýrtíðarráðstafanir stjórnarinnar eins og einstakra manna störf. En þessi hugmynd, með heyskapinn, er langt frá því að vera fráleit. Jeg vil meira að segja halda því fram, að það væri ekkert að því, þótt stjórnin, án þess að aðkallandi neyð væri, rjeði atvinnulausa menn til heyskapar upp í Borgarfjörð, Mosfellsheiði eða austur í Ölfus, hlæði þar upp að heyinu eða flytti það þegar hingað til Reykjavikur og geymdi það hjer. Jeg sýndi fram á það við 2. umr. þessa máls, að slíkur heyforði myndi koma sjer vel, jafnvel á næsta vori. Þetta er áreiðanlega engin fjarstæða, og jeg veit ekki, á hverju er nauðsyn, ef ekki á því að afla heyja næsta sumar, eins og föng eru á.

Jeg hefi nú sýnt fram á það, að till. mín á þgskj. 133 er rjettmæt og gerir það að verkum, að stjórnin getur ráðist í áveitufyrirtæki til dýrtíðarráðstafana, ef þörf gerist. Hún er því nauðsynleg, eins og á stendur, en jeg vil minna á það, að „ekki tekur til nema þurfi“.