20.06.1918
Neðri deild: 52. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Framsm. (Magnús Pjetursson):

Mjer finst gæta misskilnings í ræðu hv. þm. Borgf. (P. O.), þar sem hann er að blanda þessu frv. saman við alment viðhald flutningabrauta. Það var sem sje svo greinilega tekið fram í áliti nefndarinnar, að frv. á ekkert skylt við þesskonar, þar sem fjárveitinganefndin bygði eingöngu á því, hve brúin var illa gerð í upphafi.

Nefndin telur það rjett, að landssjóður taki einhvern þátt í viðhaldi eldri flutningabrauta, sem illa eru úr garði gerðar, því að viðkomandi hjeruð verða ver úti en hin, sem fá nýrri brautir, sem betur eru gerðar og með fullkomnari útbúnaði. Og nú hagar nokkuð svipað til þarna og á gömlum flutningabrautum.

Eftir því, sem mig minnir, hafði fjárveitinganefnd í fyrra til meðferðar beiðnir um það, að landssjóður tæki að sjer allar flutningabrautir og viðhald þeirra. Lýsti fjárveitinganefnd þá yfir því, að hún teldi, að þau sýslufjelög, sem hafa eldri flutningabrautir, yrðu hart úti, og væri ekki nema sanngjarnt, að landssjóður hlypi undir baggann um viðhaldið, einkum þó, að hann ljeti byggja steinbrýr þar, sem trjehlemmar hefðu verið settir í byrjun. Þetta, sem hjer er um ræða, er alveg samstætt dæmi því, sem lýst var yfir í fyrra, að jafna hallann á gömlu brúnum með því að gera þær nú sem næst því eins vel úr garði í viðgerðinni og þær brýr voru í upphafi, er síðar hafa verið gerðar.

Finst mjer þess vegna, að þrátt fyrir það, þótt eitthvað sje á leiðinni frá vegamálastjóra um breyting á viðhaldsskyldunni, þá megi ekki taka tillit til þess, að því er kemur til viðgerðar á þessari brú, því að það er afaráriðandi, að gert sje við hana þegar, ef ekki á að verða að tjóni. Að. vísu segir vegamálastjóri, að sem stendur hafi skemdirnar ekki mikil áhrif á burðarmagn brúarinnar, en að þær sjeu svo miklar, að alt hvað liði geti þær valdið miklu tjóni, þegar minst varir. Virðist því ekki ráðlegt að bíða, því að búast má við miklu meiri kostnaði en svo, að sýslan geti undir risið, ef brúin er látin ryðga niður. Yrði þá landssjóður að borga alla þá viðgerð.

Það er sjálfsagt rjett, að fleiri brýr muni illa úr garði gerðar. En það vita menn þó, að þessi brúin er einhver elsta brúin, og því ekki nema eðlilegt, að hún sje allra verst úr garði gerð.

Vænti jeg því, að háttv. deild leyfi frv. þessu fram að ganga.