17.05.1918
Neðri deild: 25. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Þórarinn Jónsson:

Hæstv. fjármálaráðherra (S. E.) gat þess, að jeg hefði misskilið ákvæði 1. gr. frv., sem sje það, að sveitarfjelögin mættu ekki verja meiru en 15 krónum á mann til dýrtíðarhjálpar, og að hann hefði tekið það fram við 2. umr. Það getur verið, að það sje svo, og að 5. gr. eigi að sýna það, að meiru megi jafna niður án leyfis sýslunefndar. En það er óþarfi að hafa lög svo óljós. Þess vegna tók jeg það fram, að óviðkunnanlegt væri, að sveitarfjelögin þyrftu að leita að „motiv“-inu til þess hjer í umr.

Þá gat hæstv. fjármálaráðherra um það, að þau sveitarfjelög, sem svo illa væru komin, að þau gæti enga björg sjer veitt, og ef sýslufjelögin gætu ekki heldur hjálpað, þá væri ekki annað að leita en til landssjóðs. Jú, einmitt það, þessi lög eiga ekki við þau sveitarfjelög, sem eru í neyð, og eftir þessum orðum hæstv. ráðherra hefir það verið meiningin, að þau ættu að verða út undan, því að þau kæmu til landssjóðs þegar þau gætu ekki annað. En þá er ekki verið að hjálpa þeim, sem þurfa, með þessu frv.

Þá nefndi háttv. þm. V.-Sk. (G. Sv.) þann misskilning hjá mjer, að jeg leyfði mjer að reikna með þeirri aðferð, að ekki kæmu nema 5 kr. á styrkþurfa, en það yrðu aldrei allir í sveitinni. Jú, það getur vel komið fyrir, að sveitarmenn sjeu allir svo jafnilla staddir. Og með þessari aðferð hefir verið reiknað bæði hjá stjórn og bjargráðanefnd. En hvers vegna jeg mætti ekki hafa sömu aðferð, nefndi háttv. þm. (G. Sv.) ekki. í sambandi við það sagði hann, að það gæti verið, að það væru ekki nema 2—3 menn í sveitarfjelaginu, sem þyrftu styrks með. En hvernig ættu sveitarstjórnir að sýna það, ef það er ekki meiningin, að stjórnin skuli gera sig ánægða með hvað eitt, sem sveitarstjórnir setja á reikningana? Þess vegna er það vitanlegt, að þetta kemur ekki öðrum að gagni en þeim, sem alls ekki þurfa þess með. (B. St.: Stjórnarráðið úrskurðar reikningana). Sýslunefndir úrskurða nú sveitarsjóðsreikninga. En þó að stjórnarráðið líti á reikningana, þá er hægurinn hjá fyrir sveitarstjórnir að koma þessu svo fyrir, að það sje til einhverra þeirra ráðstafana, sem margar geta verið, er lúta að dýrtíðinni.

Þá gat háttv. þm. (G. Sv.) þess, að sú lánveitingaleið, sem þingið tók í fyrra, hefði verið fordæmd, en sú leið var vitanlega tekin til þess, að lánin gætu bjargað mönnum frá neyð, eða fyrirbygt hana. Og þó að lánskjörin væru fordæmd, þarf leiðin ekki að vera það.

Háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) tók það fram, þegar öll rök voru þrotin fyrir því, að þessi litli styrkur gæti nokkuð bjargað, að þá gætu menn tekið lán. Já, það er nú svo, en þegar landsstjórnin heyrir lán nefnd, þá hrekkur hún við, og bankastjórnirnar líka, enda er það fullkomlega upplýst, að sú leið er alveg lokuð þegar í neyð er komið. Það skilja allir, nema hv. 1. þm. Reykv. (J. B.). Og svo kom háttv. 2. þm. S.-M. (B. St.) með enn þá eina leið, nefnilega að leggja skatta á efnamennina. En það átti að gerast áður en búið væri að tæma gjaldþol sveitanna og löngu áður en landssjóður þurfti að leggja til einn einasta eyri, og hann á ekki að leggja fram fje, nema því að eins, að þörf sje fyrir það.

Jeg skal nú. láta háttv. þm. (B. St.) um að koma þessu saman og skýra það fyrir deildinni. En líklega erum við orðnir eitthvað á eftir tímanum með þær ráðstafanir, sem hann vildi láta lúta hjer að. En ekkert af því, sem fram hefir verið tekið, hrekur það, að sá styrkur, sem ákveðinn er í frv., kemur þar niður, sem hans er síst þörf.