03.07.1918
Efri deild: 56. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 604 í B-deild Alþingistíðinda. (481)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Guðmundur Ólafsson:

Jeg bjóst við, að háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) mundi láta nokkur orð fylgja þessu máli, þar sem hann er eftir nál. að dæma framsögumaður. Fjárveitinganefndin er í seinni tíð farin að gera grein fyrir gerðum sínum. Í gær voru haldnar þrjár framsöguræður fyrir hennar hönd. En þetta ætlar fljótt að fara af.

Annars mun háttv. deild það kunnugt, að menn voru alls ekki sammála um þetta mál, þegar það var fyrir Nd.

Eftir núgildandi vegalögum eru það hjeruðin, sem eiga að halda við brúm, en hjer er farið fram á, að landssjóður greiði 2/3 hluta af 10 þús. kr., sem þarf til viðgerðar brúnni yfir Ölfusá. Að mínu áliti væri það mjög athugavert að taka þessa brú út úr. Jeg væri kann ske ekki svo mótfallinn því, að þingið tæki þá stefnu, að kosta viðhald allra stórbrúa úr landssjóði. Þá gengi jafnt yfir alla. En jeg álít mjög óviðeigandi að láta annað gilda um viðhald á þessari brú en öðrum brúm. Það er ekki til mikilla málsbóta, þótt lengi hafi verið vanrækt að viðhalda brúnni sæmilega og það leitt til þess, að viðgerð kostar nú mjög mikið.

Jeg skal ekki segja fleira að sinni. Jeg vil bíða þar til frsm. (E. P.) sýnir mjer betur á bak við tjöldin hjá háttv. fjárveitinganefnd; það kynni og að vera, að jeg breytti þá skoðun minni.

Þótt þau ummæli verði að líkindum látin fylgja frv., að þetta eigi ekki að skoðast sem fordæmi, legg jeg ekki mikið upp úr því. Yfirleitt finst mjer þessi klausa einhver sú ógeðfeldasta, sem látin er oft fylgja ráðstöfunum þingsins.