03.07.1918
Efri deild: 56. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Frsm. (Eggert Pálsson):

Háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) mintist á það, að jeg hefði haldið þrjár framsöguræður í gær fyrir hönd fjárveitinganefndar. Þetta er rjett. En þar sem engar aðrar umræður urðu um þau mál og deildin samþykti tillögur fjárveitinganefndar breytingalaust, þótti mjer sem framsöguræður væru ekki altaf nauðsynlegar, þar eð sýnt var, að deildin bæri slíkt traust til nefndarinnar, að hún samþykti tillögur hennar orðalaust. En samkvæmt ósk háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó) er það velkomið að gefa nánari skýringar á máli þessu.

Upphaflega hljóðaði frv. svo, að öll viðgerðin á brú þeirri, er hjer er um að ræða, skyldi kostuð af landssjóði. En háttv. Nd. breytti því svo, að landssjóður skyldi ekki kosta viðgerðina nema að 2/3 hlutum. Þetta var gert eftir tillögum Geirs Zoega verkfræðings. Það liggja alveg sjerstakar ástæður til þess, að slíkar umbætur, sem hjer ræðir um, þurfa að gerast. Hið mikla fje, sem nú er þörf á, fer ekki beint til viðhalds brúnni, það segir sig sjálft, heldur að nokkru leyti til endurbyggingar eða umbóta. Brúnni hefir altaf verið sæmilega við haldið. Árið 1914 voru lagðar fram 1.024 kr. til viðhalds, árið 1915 277 kr. og árið 1916 362 kr. Það sjá því allir, að einhverjar sjerstakar orsakir hljóta að liggja til þess, að nú þarf að ráðast í verk, sem áætlað er að kosti um 10 þús. kr. Frá upphafi hafa sem sje verið gallar á brúnni, sem sýslunefndinni hefir verið ókunnugt um. Ef henni hefði verið kunnugt um þá, þegar tekið var við brúnni, hefði auðvitað verið á þá minst, og landsstjórnin þá látið ráða bót á þeim.

Og það eru þessir gallar, sem nú þarf að bæta úr. Og þá endurbót ber landssjóði, ef ekki lagaleg, þá siðferðileg skylda til þess að kosta að einhverju leyti, nú þegar þeir koma í ljós.

Til stuðnings máli mínu skal jeg, með leyfi forseta, leyfa mjer að lesa eftirfarandi kafla úr brjefi verkfræðings:

„Svo sem meðlagt eftirrit af símskeyti mínu til sýslunefndar Árnessýslu ber með sjer, tel jeg ekki viðhaldsvanrækslu eingöngu um að kenna skemd þá, sem orðin er á sumum brúarjárnunum, heldur og galla á gerð brúarinnar og uppsetningu í byrjun. Þá hefir verið gengið svo frá hliðarbitum úr járni eftir brúnni endilangri, að trje hafa verið lögð upp með þeim svo þjett, að ekki hefir verið unt að komast að þeim til viðhalds og málunar. Hafa þau því náð að ryðga svo, að jafnvel eru komin á þau smá ryðgöt“.

Af þessum kafla má sjá, að frá upphafi hefir verið stórgalli á brúnni. Hv. Nd. hefir viljað hlaupa undir bagga með sýslunefndinni, og vil jeg vonast til, að sama verði um þessa deild. Það hefir aldrei verið tilætlunin að afhenda sveitarstjórnum sem gölluðust mannvirki til viðhalds. Fyrst smíðin var í upphafi gölluð, er ekki nema sjálfsagt, að landssjóður bæti það upp. Um það má vel myndast fordæmi. Þetta verður hins vegar aldrei neitt fordæmi fyrir því að ljetta eðlilegu viðhaldi af sýslunefndunum, hvort heldur á brúm eða vegum, Það liggur í augum uppi.