05.07.1918
Efri deild: 58. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 607 í B-deild Alþingistíðinda. (484)

28. mál, fé úr landssjóði til viðhalds Ölfusárbrúnni

Guðmundur Ólafsson:

Jeg talaði nokkur orð við 2. umr. þessa máls og vakti athygli á, að óviðfeldið væri að fá ekki að vita, hvað vekti fyrir fjárveitinganefnd, er hún leggur til, að 2/3 hlutar af 10 þús. kr., sem þarf til viðgerðar Ölfusárbrúnni, verði greiddir úr landssjóði.

Svo skýrði háttv. frsm. (E. P.) frá því, að ekki væri eingöngu um viðhald að ræða, heldur líka um endurbót á smíðagöllum, sem verið hafa á brúnni frá upphafi. Hann gat þess og, að háttv. fjárveitinganefnd teldi fyrir sitt leyti sjálfsagt, að landssjóður rjetti hjálparhönd, þegar líkt stæði á með samskonar mannvirki annarsstaðar. Við 2. umr. málsins hjelt jeg því fram, að sama væri látið ganga yfir allar stórbrýr landsins. Og nú hefir háttv. frsm. fjárveitinganefndar (E. P.) lýst yfir því, að nefndin sje á sömu skoðun.

Jeg skal að vísu ekkert segja um smíðagallana á brúnni, en seint þykir mjer þeir koma fram, þar sem brúin er búin að standa í rúm 20 ár.