06.05.1918
Neðri deild: 17. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 609 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

31. mál, hafsaga í Reykjavík

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Jeg get eiginlega skírskotað til athugasemdanna, sem eru við þetta lagafrv., og þarf því ekki að tala langt mál. Þörfin á breyttu skipulagi við hafnsöguna hjer er mikil, og þau lagaákvæði, sem til eru um það efni, eru gömul og ófullnægjandi.

Þetta frv. er samið af hafnarnefnd Reykjavíkur, og ætla jeg það af góðum kunnugleik gert og þannig úr garði gert, að vel megi við una, og sje því ekki neina ástæðu til þess að gera till. um, að því verði vísað til nefndar. Ætla jeg frv. svo vel athugað, að þess gerist ekki þörf. Skal jeg að eins leyfa mjer að geta þess, að ef til vill væri greinilegra, að í 1. gr., annari málsgrein, kæmi komma á eftir orðinu „skemtiskip“, eða þá orðið „svo“, til þess að taka af öll tvímæli um, við hvað það ætti.

Það virðist vera í alla staði vel frá frv. gengið. Vænti jeg því, að háttv. deild leyfi því að ganga til 2. umr.