13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 630 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

32. mál, fræðsla barna

Þórarinn Jónsson:

Jeg ætla ekki að lengja umræðurnar mikið. Það, sem gaf mjer tilefni til þess að kveðja mjer hljóðs, voru síðustu ummæli háttv. frsm. (J. B.), sem sje þau, að sveitarlimir væru teknir til starfans, án nokkurs tillits til þess, hvort þeir hefðu snefil af hæfileikum til þess eða ekki. Þessi ummæli skoða jeg staðlausan tilbúning.

Hann hafði sagt það fyr í ræðu sinni, að fræðslunefndir legðu mesta áherslu á að fá ódýra kennara, en skeyttu því minna, hvort þeir væru starfinu vaxnir. Jeg verð að leyfa mjer að neita þessu algerlega og skoða það sem órökstuddan sleggjudóm. Jeg veit ekki til þess, að neinsstaðar, þar sem jeg þekki til, hafi verið teknir kennarar, sem ekki hafi annaðhvort gengið gegnum kennaraskólann eða gagnfræðaskólann á Akureyri. Mjer þykir leiðinlegt, þegar svo kallaðir mentamenn, sem komist hafa upp í kennarastöðu, annaðhvort af því, að þeir eru til þess hæfir, eða af öðrum ástæðum, mjer þykir leiðinlegt segi jeg, þegar þessir menn eru að niðra og níða niður þá menn, sem afskifti hafa af fræðslumálum úti um landið. Það er engan veginn víst, að menning þessa lands eigi sínar bestu stoðir þar, sem eru þessir svonefndu mentamenn. Líklega á hún tryggustu og bestu ræturnar úti um sveitir landsins, eins og hún hefir altaf átt. Líka þótti mjer óviðfeldið að hlusta á það hjá hæstv. forsætisráðherra, að kennarar sjeu yfirleitt ljelegir af því, að laun þeirra sjeu svo lág. Jeg veit ekki til þess, að kennaraefni sjeu framleidd hjer á landi annarsstaðar en frá kennaraskólanum. Ef menn þeir, sem af þessum skóla koma, eru þannig innrættir, að þeir leysi ekki störf sín eins vel af hendi og þeim er unt, þótt þeir fái lág laun fyrir, þá finst mjer ekki rjett að hækka laun við þá. Ef alúðin við starfið væri bundin við launin, yrði naumast ástæða til þess að hlaða undir þá stjett. En jeg veit til þess, að þessir menn starfa yfirleitt vel, þó að þeim sje ekki betur borgað en nú er. Jeg hygg, að hjá þeim flestum sje starfið og alúðin við það eitt, en launin alt annað atriði. Það mun líka mega benda á það, að það eru ekki altaf bestu kennararnir sem best eru launaðir. Jeg er ekki á móti því, að kjör kennara þurfi að bæta og eigi að bæta. Úti um landið mun það að vísu verða svo, að barnakenslan verði aukastarf þeirra, sem hana stunda. En mjer dettur ekki í hug að hafa á móti því, að það er ekki lítil vinna, sem þeir leggja á sig fyrir lítið endurgjald. En jeg hefi ekki orðið var við neinar umkvartanir frá þeirra hálfu eða komist að því, að þeir fyrir þetta legðu litla alúð við starf sitt, eins og jeg áðan tók fram.

Jeg býst við að greiða atkv. með þessu frv.; þó að jeg mælti á móti frv. stjórnarinnar um laun barnakennara, af þeim ástæðum, sem jeg þá tók fram, þá viðurkenni jeg það, að það þyrfti að hækka þau, og get því greitt atkvæði með þeirri hækkun, sem hjer er farið fram á.