13.05.1918
Neðri deild: 21. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (523)

32. mál, fræðsla barna

Frsm. (Jörundur Brynjólfsson):

Hæstv. forsætisráðherra misskildi það, sem jeg sagði um borgunina fyrir störf kennara. Jeg sagði á þá leið, að þótt jeg liti svo á, að manndygð og mannkostir yrðu ekki keyptir við fje, þá yrði þó að sjá um, að launakjörin væru svo, að mennirnir, sem þessu starfi gegna, geti lifað sómasamlega. Jeg held, að þetta sje ekki nein mótsögn eða neitt undarleg skoðun. Ef maðurinn rækir ekki starf sitt undir þeim kringumstæðum, þá mun hann ekki gera það þótt honum sje yfirborgað.

Háttv. þm. Barð. (H. K.) kvaðst ósamþykkur því orðalagi í greinargerð frv., að alþýðukennarar sættu ókjörum. Jeg skil ekki, hvernig háttv. þm. geta mótmælt þessu. Skilur ekki háttv. þm. Barð. (H. K.), að slík orð sjeu rjettmæt, er hann litur til þess, að mennirnir verða að vinna í kaupstöðum 6—8 mán. fyrir 7—800 kr. kaupi, og er það þó óvíða sem þeir hafa svo mikið, óvíða yfir 3—400 kr. Eru þetta ekki ókjör, og þá einkum er litið er til þess verðs, sem nú er á allri nauðsynjavöru? Jeg held, að það sje vægast sagt ókjör, og ætti mikið betur við að kalla það hreint og beint ósæmilegt.

Með þessu atriði hefi jeg að nokkru leyti svarað háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.). Það kann vel að vera, að til sjeu þeir kennarar, sem ekkert skeyta um laun sín. En ef þeim er sama, þótt fjölskylda þeirra svelti, þá efast jeg um, að þeir geti nokkuð unnið unglingunum til góðs.

Það er vitanlegt, að þeir sveitakennarar eru langbest settir, sem taka fæði sitt hjá öðrum; þótt þeir fái minna kaup, þá kemur dýrtíðin ekki niður á þeim.

Það er gleðilegt, að þeir þar norður frá, í sveit háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), leggja áherslu á að fá nýta menn í kennarastöðurnar, og býst jeg við, að þeir greiði þeim hærra en lágmarkskaup það, er fræðslulögin ákveða. Jeg veit, að kennurum er goldið hærra en beint er fyrirskipað, í þeim bygðarlögum, þar sem menn hafa skilning á störfum þeirra, og svo mun vera hjá háttv. 1. þm. Húnv. (Þór. J.), en annarsstaðar mun þetta nokkuð á annan veg. (P. J.: Hvar er það?). Það mun vera mjög víða til sveita, og tel jeg til of mikils mælst, ef þess er krafist, að jeg fari að telja upp flestöll fræðsluhjeruð landsins, því að hitt munu að eins undantekningar frá aðalreglunni. Þær geta átt sjer stað í Húnavatnssýslu, Þingeyjarsýslu og ef til vill í Eyjafjarðarsýslu. Á þessum stöðum mun ástandið skárst. Þessi hjeruð landsins hafa einna mest látið sig skifta almenna fræðslu.

Sami háttv. þm. (Þór. J.) mintist á það, að jeg hafði skýrt frá, að sveitarlimur hefði verið tekinn til kenslu. Jeg þekki fræðsluhjerað, þar sem þetta var gert, án nokkurs tillits til hæfileikaeða þekkingar, er þetta starf útheimtir. Jeg var ekki að lasta þessa ráðstöfun, að skipa slíkan mann, ef um næga hæfileika hefði verið að ræða, en í þessu tilfelli var því atriði mjög áfátt.

Tel jeg svo ekki, að jeg þurfi að fjölyrða frekar. En það hygg jeg, að þótt þeir sjeu ekki þessari stjett, kennarastjettinni, þarfastir, sem kvarta yfir kjörum hennar, þá sjeu hinir þó ekki betri, er þegja eða leggjast móti öllum umbótum.