18.06.1918
Efri deild: 46. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (534)

32. mál, fræðsla barna

Frsm. (Kristinn Daníelsson):

Hæstv. forsætisráðherra tók rjett fram skoðun vora á stjórnarfrv. Jeg fyrir mitt leyti neita því ekki, að hann hafi mikið til síns máls, en eins og jeg tók áðan fram, þá liggur það frv. ekki fyrir okkur að þessu sinni. Jeg þakka og hæstv. forsætisráðherra fyrir undirtektir hans um brtt. nefndarinnar, er hann taldi ekki ósanngjarna.

Eins og hagað hefir hin síðari ár, þá hefir fræðslukostnaðurinn allur numið kringum 200 þús. kr., en samkvæmt fjárlögunum er gert ráð fyrir því, að framlag landssjóðs til hans megi vera 1/2 kostnaður, en framlagið hefir viða ekki numið meiru en 1/4 hluta af skólakostnaðinum. Ef brtt. nefndarinnar yrði samþykt, þá yrði alt framlag landssjóðs samkvæmt fjárlögunum 50 þús. kr. og svo eftir þessu frv. um 40 þús. kr., eða alls um 90 þús. kr., eða 10.000 kr. minna en fjárlögin gera ráð fyrir að það megi nema.

En í sambandi við þennan kostnaðarauka eftir brtt. vorri skal jeg geta þess, að hann verður naumast eins mikill eins og jeg hefi gert ráð fyrir, því að viðast í kaupstöðum fá kennararnir, eins og jeg tók fram, hærri laun en fræðslulögin gera ráð fyrir, svo að landssjóður þyrfti ekki að greiða 2/3 af kauphækkun þeirra samkvæmt brtt. nefndarinnar. Raunverulega yrði kostnaðaraukinnn því ekki nema 35 þús. kr., eða jafnvel ekki nema 30 þús. kr., og þá yrðu það ekki nema 80 þús. kr., er landssjóður legði fram af þeim 200 þús. kr., sem barnafræðslan kostar, og jeg fæ ekki sjeð, að neitt athugavert sje við það.

Hæstv. forsætisráðherra gat þess, að rjettara væri að forminu til að bera málið undir fjárveitinganefnd, og er það rjett, og getur nefndin sjeð um, að svo verði gert til þriðju umræðu. Að nefndin hefir ekki þegar gert það stafar meðfram af því, að einn nefndarmannanna er einnig í fjárveitinganefndinni, og við töldum víst, að nefndin hefði ekkert við málið að athuga.

Jeg vænti þess, að háttv. deild sjái, að meðalvegur sá, er nefndin fer, er mjög sanngjarn, og jeg veit, að ýms sveitarfjelög eru ekki fær um að bæta á sig 7—900 kr. útgjöldum til mentamála. Landssjóður verður þar að hlaupa undir bagga.