25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (549)

41. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Einar Arnórsson):

Allsherjarnefndin hefir orðið á eitt sátt um það, að misrjetti sje að leggja skatt eingöngu á þá, sem sækja kvikmyndahús, því að um það er ekki að villast, að skemtanaskattur kemur einungis niður á þeim, sem skemtanirnar sækja. Það er því meira samræmi í því að leggja skatt á allar skemtanir yfirleitt, innan þeirra takmarka, sem sett eru í lögunum.

Aðalbreyting nefndarinnar við frv. það, er háttv. 1. þm. Reykv. (J. B.) flutti, er sú, að skattinn skuli ekki miða við tekjurnar, eins og þær eru í heild sinni, heldur eftir að kostnaðurinn er dreginn frá.

Nefndin leggur til, að skatturinn megi ekki vera meiri en 20% af aðgöngueyri.

Það þarf ekki að mæla með þessari breytingu, því að allir sjá, hve það er óhæfilegt að leggja svona hátt hundraðsgjald á brúttótekjur. Það gæti orðið til þess, að þeir, sem slíkar sýningar halda, yrðu alveg að hætta því, og mætti þá eins vel loka fyrir þær á annan hátt.

Vel getur verið, að eitthvað komi fram við þessar umræður, athugasemdir við einhver atriði í tillögum nefndarinnar, sem mætti laga við 3. umr. Nefndin er þakklát fyrir allar slíkar athugasemdir og er fús á að taka þær til greina og koma með nýjar brtt. við 3. umr., ef hún sjer fært og ástæða þykir til.