25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 663 í B-deild Alþingistíðinda. (552)

41. mál, skemmtanaskattur

Bjarni Jónsson:

Jeg get ekki setið hjá aðgerðalaus og látið þetta frv. mig engu skifta. Það er eins og nú eigi að fara að leggja skatt á leikhúsið hjerna, eða ef einhver myndhöggvari ætlaði að sýna listaverk sín. (E. A.: Nefndin hefir tekið þá undan). Jeg bið afsökunar. Jeg tók ekki eftir því, að þetta stendur í brtt. nefndarinnar. En jeg sje hvergi, að leikhús sjeu undantekin. (E. A.: Nefndin ætlar að athuga það til 3. umr.). Ef nefndin tekur líka upp þetta atriði, þá hefði jeg ekki þurft að standa upp, og get látið úttalað.

Eitt atriði ætla jeg þó að athuga áður en jeg sest niður. Nefndin ætlast til, að skatturinn megi vera alt að 20% af inngöngueyri. Þetta gerir ekkert til, ef þessar sýningar eru undanteknar, sem ekki borga sig.

Þótt söngskemtanir sjeu ekki nefndar hjer, virðist sjálfsagt, að þær heyri undir sama lið sem höggmynda-, málverka- og teiknisýningar og leikhús. Það kemur ekki til mála að leggja jafnvel 1 eða 2 af hundraði á þá fáu menn, er syngja hjer opinberlega. Því að þótt einstaka frægir söngmenn, er hingað koma, fái húsfylli nokkur kvöld og geti haft allálitlegan ágóða af söngskemtunum sínum, þá er þó hitt tíðara, að enginn hagnaður er af skemtuninni og aðgangseyrir hrekkur naumast fyrir auglýsingakostnaði, aðstoð og húsaleigu.

Svo mun vera um 90 af 100 af slíkum skemtunum hjer í bæ, að þær þola ekki að greiða neinn skatt, því að þá mundu menn þeir, er að þeim standa, verða að greiða skatt af skaða sínum.

Jeg vona því, að háttv. nefnd taki þessar athugasemdir til greina og beri fram brtt. við 3. umr, á þá leið, að undanskilja þessar skemtanir og leiksýningar skatti.

Þá þykir mjer sem það muni geta verið háskalegt að leggja skatt þenna á aðgöngumiðana. Aftur væri rjett að taka ákveðið hundraðsgjald af tekjunum að frádregnum kostnaði. Kæmi þá skatturinn niður á þeim skemtunum einum, sem gefa arð af sjer. Að öðrum kosti mundu menn hækka aðgangseyrinn um það, sem skattinum næmi, og væri þá miklu rjettara að banna þessar skemtanir með öllu. Skemtanirnar færu þá að eins freklegar í vasa almennings og þar sem það er almenningur, sem njóta á skattsins, hefði fje þetta einungis vasaskifti. En væri skatturinn lagður á hreinan ágóða af skemtunum þessum, mætti hann vera fult eins hár og frv. fer fram á, eða jafnvel nokkru hærri.

Jeg vænti þess fastlega, að nefndin gangi svo frá frv., að bannað verði að leggja skatt á listir, svo að þær verði ekki kyrktar í fæðingunni.