25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 667 í B-deild Alþingistíðinda. (555)

41. mál, skemmtanaskattur

Magnús Pjetursson:

Jeg get þakkað háttv. frsm. (E. A.) góðar undirtektir undir athugasemd mína.

Mjer skilst, að tilgangur nefndarinnar sje sá, að leggja einungis skatt á þá, er sækja skemtanir, að skatturinn sje einskonar stimpilgjald á aðgöngumiðana. (E. A.: Hlýtur altaf að koma þannig fram). Háttv. frsm. (E. A.) kvað það mundu gera Leikfjelagi Reykjavíkur lítið til, þó að skatturinn yrði lagður þannig á. En mjer er kunnugt um, og það mun öllum Reykvíkingum, að eigi Leikfjelagið að geta haldið sýningum sínum áfram, mun það tæplega geta hækkað aðgöngueyrinn. Það yrði líklega að hætta starfi sínu, og munu allir telja það illa farið. (E. A.: Er ekki altaf húsfyllir?) Nei, alls ekki og það jafnvel ekki nú um þingtímann, og mætti þó ætla að munaði um þingmennina, því að sjálfsagt sitja þeir sig ekki úr færi með að njóta listarinnar.

Jeg býst við því, að tilgangurinn sje sá, að skatturinn komi niður á ónytsamlegum og fánýtum skemtunum. En markmið Leikfjelagsins hefir Alþingi viðurkent að sje beinlínis nytsamlegt, með styrk sínum.

Verði brtt nefndarinnar samþ. þætti mjer vænt um, ef nefndin vildi láta mig vita nógu snemma, hvort hún ætlar að bera fram brtt. í þessa átt. Geri hún það ekki, mun jeg gera brtt. við frv. til 3. umr.