25.05.1918
Neðri deild: 31. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 671 í B-deild Alþingistíðinda. (558)

41. mál, skemmtanaskattur

Bjarni Jónsson:

Athugasemd, sem jeg má til að gera. Jeg man það nú, að jeg hefi oft sjálfur orðið að sækja til bæjarfógeta um leyfi til að halda fyrirlestra og annað fleira, og hefi jafnan fengið það gjaldlaust. Þessi lög eru því alveg óþörf, því að menn hafa þetta nú þegar í hendi sjer. En það eina, sem þarf að setja í lög, er að fyrirbjóða mönnum að leggja skatt á listir. Það verður að takmarka vald bæjarstjórnar í því efni. Jeg þekki til dæmis ágæta söngkonu, sem hjer hefir búið um hríð, skemt bæjarbúum oft og mörgum sinnum með ágætum söng, kent öðrum sönglist og hjálpað til með list sinni við mörg góðgerðafyrirtæki. Svo heldur hún söngskemtun fyrir sjálfa sig, af því að hún þarf að fara utan með barn sitt til lækninga. Þá varð hún að greiða 15% í skatt. Þetta þarf að banna.