28.06.1918
Efri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 677 í B-deild Alþingistíðinda. (574)

41. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Magnús Torfason):

Jeg þóttist við aðra umr. málsins taka skýrt fram ástæður allsherjarnefndar um breytingar þær, er hún gerði, og einnig tók jeg skýrt fram þær ástæður, er liggja til þess, að eigi er unt að ákveða nánar í lögunum sjálfum, hvernig skattinum skuli varið. Það er ekki hægt að gera þar frekar að en afmarka svæðið.

Eftir brtt. á þgskj. 407 get jeg ekki betur sjeð en að sveitarfjelögin hafi rjett til að nota þennan skatt til almennra sveitarþarfa, svo sem framfærslu ómaga. En nefndin lítur svo á, að það sje ekki rjett að verja skattinum svo; það sjeu nógar aðrar holur fyrir hann. Og ef skattinum yrði varið til almennra sveitarþarfa, þá græddu vitanlega hæstu gjaldendurnir mest á því, og mun þó enginn ætlast til þess. Jeg man t. d, að sveitarfjelagi voru eitt sinn gefnar 10.000 kr., því til framfara, en svo hefir verið með gjöf þessa farið, að hæsti gjaldandinn hefir mest á henni grætt. Hann greiðir um 20% af útsvörum þar, og græðir því árlega 20% af vöxtunum.

Nefndinni barst ósk um, að skatturinn gengi til styrktar leiklistinni, en það er ekki unt að lögbinda það. Svo eru ýms líknarfjelög, sem vilja njóta góðs af skattinum, t. d. barnahælið hjer í Reykjavík, en nefndin vildi ekki heldur lögbinda skattinn þeim til handa, en láta bæjarstjórnum eða sveitarstjórnum það í vald, til styrktar hverju skattinum yrði varið.

En eins og jeg tók fram áðan, þá er, samkvæmt brtt., heimilt að verja skattinum til almennra sveitarþarfa, en því er nefndin ósamþykk. En það, að hún vill ekki lögskorða skattinn, er meðal annars vegna þess, að líknarfjelögin eru ekki svo fastgróin, — þau breytast. Og þótt einhver sveit vilji í ár verja skattinum til styrktar barnahæli, þá má vel vera, að hún næsta ár vilji verja honum til alls annars, t. d. til styrktar leiklist.

En auk þess mætti þetta ákvæði verða til þess að ýta undir þá, er hefjast vilja handa um líknarstörf og framlög til þess. Það gæti og hjálpað sjúkrafjelögum, en þau hafa átt örðugt uppdráttar.

Jeg varð var við það, þegar gengið var til atkvæða við síðustu umr., að sumum háttv. þm. þóttu ákvæði frv. um þetta ekki nógu skýr, en það mun stafa af því, að þeir hafa ekki athugað ákvæði 3. gr., því að þar segir svo um reglugerðina, að þar skuli kveða á um „innheimtu og annað, er þar að lýtur“, eða með öðrum orðum um alt, er málið varðar. Það var því óþarfi að kveða ger á um þetta en brtt. nefndarinnar gerði. Það var því og er nóg að útiloka það, að leyfilegt sje að verja skattinum til að ljetta skattabyrði skattgreiðanda.

Ef flutnm. brtt. vilja, eins og háttv. þm. Snæf. (H. St.) tók fram, láta verja skattinum til líknarstarfsemi eða lista, þá hnígur brtt. þeirra ekki í þá átt, og þeir gerðu því rjettast í að taka hana aftur. Nefndin ræður til, að hún sje feld, ef hún kemur til atkvæða.