28.06.1918
Efri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 683 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

41. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Magnús Torfason):

Það er leitt að lengja umr. um jafnlítið mál og þetta er. En það skýtur nokkuð skökku við hjá háttv. þm. Ak. (M. K.) og hæstv. fjármálaráðherra. Fjármálaráðherrann vill hafa „positivt“ ákvæði í lögunum um það, hvað eigi að gera við skattinn, en hv. þm. Ak. (M. K.) vill að eins það eitt, að skatturinn renni í bæjarsjóð eða sveitar óskoraður.

Í 1. gr. frv. er tekið fram, að undanþágu frá skatti megi veita fyrir þær skemtanir, sem haldnar eru til styrktar líknarstarfsemi og listum, og jafnframt hefir það komið fullgreinilega fram hjer í deildinni, að það er ætlast til, að skatturinn gangi til líknarstarfsemi og lista. Það var því, held jeg, óþarfi af háttv. þm. Ak. (M. K.) að fara að tala um þrælabönd í sambandi við þetta mál, eða brýna mig á, að jeg vildi leggja á slík bönd. Jeg hygg nú sannast að segja, að skemtanaskatturinn yrði aldrei svo hár, að honum yrði varið til margs í einu, a. m. k. meðan dýrtíð og neyð standa fyrir dyrum.

Í þessu sambandi dettur mjer í hug eitt atriði í sögu leiklistarinnar hjer í Reykjavík, sem gerði það að verkum meðal annars, að allsherjarnefnd vildi ekki fela sveitarstjórnum fult vald á hagnýting skattsins. Leikfjelagið hefir haft styrk úr landssjóði gegn styrk úr bæjarsjóði, en samt hefir bæjarstjórn lagt skatt á hverja sýningu, og þar að auki ákveðið, að leikfjelagið ætti að leika frítt 3—5 kvöld, svo að útgjöldin hafa í raun og veru orðið meiri en tekjurnar frá bæjarsjóði. Þetta má ekki svo til ganga. Jeg get vorkent þeim leikendum hjer, sem leggja á sig vinnu fyrir lítið eðá ekkert, og ætti það alls ekki að viðgangast framvegis, að skattur sje lagður á slíkar skemtanir.

Vænti jeg svo, að ef menn eru sammála um, að láta þennan skatt ganga til lista, vísinda eða líknarstarfsemi, þá geti þeir ekki heldur með góðri samvisku samþykt brtt. á þgskj. 407.