28.06.1918
Efri deild: 53. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 684 í B-deild Alþingistíðinda. (581)

41. mál, skemmtanaskattur

Guðmundur Ólafsson:

Mjer fanst niðurlagið á 2. gr. frv. strax óheppilega orðað og greiddi henni atkv. með fyrirvara. Og jeg býst við, að það yrði nokkuð óþægilegt að verja skattinum á þann hátt, að ekki kæmi í bága við þetta ákvæði í niðurlagi 2. gr., enda mjög varhugavert ákvæði að setja það sem skilyrði fyrir ráðstöfun skattsins, að hann komi aldrei skattgreiðendum að notum. öllum kom saman um að verja skattinum til góðgerða, lista, og þá mætti líka bæta við — til fróðleiks og þarflega fyrirtækja.

Mjer finst alls ekki hættulegt að lofa sveitarstjórnunum sjálfum að hafa tillögurjett um þetta; þær mundu alls ekki fara að verja skattinum í ráðleysu.

Annars býst jeg við, eftir því sem háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagðist, að það hafi verið leikfjelag Reykjavíkur, sem ruglaði menn. Það er alveg rjett um það fjelag, að síst ætti að skatta skemtanir þess, en úti um sveitir eru talsverðar skemtanir, og margar þeirra gefa töluvert af sjer og eru jafnframt ekki ætið haldnar í svo þörfum tilgangi, að ástæða væri til að hlífa þeim við skatti, og ekki mun þetta síður eiga við um flestar skemtanir í kaupstöðum.

Að öllu athuguðu verð jeg að greiða atkvæði með brtt. á þgskj. 407.