03.07.1918
Neðri deild: 62. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 691 í B-deild Alþingistíðinda. (594)

41. mál, skemmtanaskattur

Sigurður Stefánsson:

Jeg verð að vera háttv. allsherjarnefnd sammála um það, að rjett sje að samþykkja frv. þetta óbreytt. Jeg get ekki vantreyst bæjar- eða sveitarstjórnum til þess að fara með það vald, sem þeim er hjer gefið. Mjer þykir vænt um, að frv. þetta er fram komið, því að það getur miðað að því að styðja listir í landinu. En þar sem svo langt er liðið á þingtímann, þá er allur dráttur á samþykt frv. tilraun til þess að drepa það. Og ef því yrði breytt hjer, yrði það að ganga aftur til Ed. og loks í sameinað þing, og þá er vansjeð um forlög þess.

Er jeg því á móti því, að málið sje tekið út af dagskrá, og vona, að tillögu allsherjarnefndar verði fylgt og frv. samþ.