05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í B-deild Alþingistíðinda. (60)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Það virðist liggja í augum uppi, að ókleift er að segja um, hve þungir baggar landssjóði eru bundnir, ef brtt. verða samþ. Á þessum tímum hefir landssjóður í mörg horn að líta, og er því mjög óheppilegt að gera dýrtíðarfrv. svona úr garði. Það er ekki rjett að gefa stjórninni svona ótakmarkaða heimild til lána- og styrkveitinga, sem búast má við að mikið verði sókst eftir. 6% af fyrstu 10 krónunum á mann ætti ekki að fæla. Það eru ekki hærri vextir en nú tíðkast. En þegar komið er upp fyrir þessar 10 krónur, verða lánin samt ólíkt þægilegri. Þá fær sveitarfjelagið 10 krónur að gjöf með hverjum 10 kr., sem það tekur að láni. Svona lánskjör eru stórgróðavænleg fyrir hvert sveitar- eða bæjarfjelag. Það væru ekki lítil hlunnindi fyrir Reykjavík, ef hún tæki 500 þús. kr. lán, auk fyrstu 160 þúsundanna, að fá þá jafnframt 500 þús. kr. að gjöf. Svona heimild gæti auðveldlega orðið hættuleg. Það má búast við, að margur eigi örðugt uppdráttar hjer í Reykjavík að vetri. Það má gera ráð fyrir, að heldur kreppi að, og þó kostar nú smjörkílóið 6 kr., mjólkurlíterinn 52 aura, smálestin af kolum 300 kr. Það væri því hægðarleikur að rökstyðja drjúgan styrk til Reykjavíkurbæjar að vetri. Það gæti því verið stórhættulegt að setja engin takmörk. Ef háttv. nefnd vildi hlynna eitthvað að Reykjavík sjerstaklega, væri hyggilegt að gera það með 6. gr. stjórnarfrv., um atvinnubætur, en láta hámarkið halda sjer. Vinnan er besta hjálpin, þegar hægt er að koma henni við. Hún er affarasælust, bæði fyrir þann, sem veitir hana, og hinn, sem þiggur hana. Hungurlög eiga þetta ekki að vera, og því er hámarkið sjálfsagt og nauðsynlegt.