04.07.1918
Neðri deild: 63. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (600)

41. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Einar Arnórsson):

Jeg skal að eins leyfa mjer að skýra frá því, að allsherjarnefnd hefir athugað frv. síðan það kom úr háttv. Ed. Þar hefir sú breyting verið gerð á frv., að ekki sje beinlínis lögákveðið að undanþiggja neinar skemtanir skattinum, heldur sje það reglugerðaratriði, og ákveði bæjar- eða sveitarstjórn í hvert skifti, hvort skemtun sje undanþegin skattinum eða ekki. Þær skemtanir, er undanþiggja má með reglugerð, eru yfirleitt þær sömu sem undanþegnar voru í frv., eins og það var afgreitt frá þessari háttv. deild.

Þar sem það er nú vilji þingsins, að listsýningar og fræðandi skemtanir sjeu undanþegnar skattinum, má gera ráð fyrir, að bæjarstjórn muni ekki fara í bága við hann, enda ætti dómsmálaráðherra, sem á að leggja samþykki sitt á reglugerðirnar, að gæta þess, að þær sjeu í samræmi við vilja þingsins.

Jeg hygg, að það hafi vakað fyrir háttv. Ed., að lista- og söngskemtanir ættu ekki saman nema nafnið, og væri því ekki rjett að undanskilja þær alment skattinum í lagatextanum sjálfum.

Hjer liggur fyrir, á þgskj. 447, brtt. frá háttv. þm V.-Sk. (G. Sv.) Fyrri liðurinn fer í þá átt, að 1. gr. frv. orðist mjög svipað því, sem þessi háttv. deild skildi við hana. Jeg býst ekki við því, að ástæða sje að deila um þessi atriði. Menn munu sammála um þau og munu ætlast til, að lögunum verði beitt á þann veg, sem brtt. kveður á um.

Síðari liður brtt. á þgskj. 447 er tiltölulega meinlaus. Þar er kveðið á um, að skatturinn skuli renna að 2/3 hlutum í landssjóð, en að 1/3 í bæjar- eða sveitarsjóð. Jeg veit ekki, hvort ástæða er til að skifta slíku lítilræði, sem skatturinn verður, — um stórfje getur aldrei verið að tefla. Það er miklu nær, að hann renni allur í bæjar- eða sveitarsjóð, heldur en að skifta honum. En annars læt jeg mjer þetta í ljettu rúmi liggja.

Þá er brtt. á þgskj. 450, er fer í þá átt, að sje sjónleikum, sem styrks njóta af landsfje, haldið uppi í bæjar- eða sveitarfjelagi, skuli skattinum varið til þess að styrkja þá leiklist. Í frv., eins og það kom frá háttv. Ed., stendur, að í reglugerð þeirri, sem um er getið í gr., skuli ákveðið, hvernig styrknum skuli varið. Menn hafa lagt það til að ákveða þetta í reglugerðinni. Slík leiklist gæti komið hjer til greina, en auk þess getur skatturinn runnið til einhverra þjóðþrifastofnana í bæjar- eða sveitarfjelaginu, og sjeu þær ekki til, þá ætti hann að renna í ellistyrktarsjóð þess

Mjer skilst nú, að útkoman verði svipuð í framkvæmdinni, hvort sem brtt. á þgskj. 447 og 450 verða samþyktar eða ekki. Að minsta kosti er óhætt að treysta því, að svo verði, ef hæstv. stjórn vildi láta í ljós álit sitt um það, hvernig þessu myndi hagað í væntanlegri reglugerð og hún lýsti yfir því, að því mundi hagað á þennan veg. Hæstv. forsætisráðherra er því miður ekki viðstaddur nú, en væntanlega verður hægt að fá álit hans um þetta atriði síðar.

Nefndin leggur til, út frá þessu sjónarmiði, að frv. verði samþ. óbreytt. Henni finst ekki ástæða til þess að hrekja það frekar á milli deildanna og ef til vill til sameinaðs þings. Telur nefndin það vart munu borga sig.