10.06.1918
Neðri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 703 í B-deild Alþingistíðinda. (639)

92. mál, heimild til tryggingar á aðflutningum til landsins

Einar Arnórsson:

Jeg skal leyfa mjer að koma fram með brtt., sem er þess efnis, að orðin „ef nauðsyn krefur“ verði feld úr frv. (M. Ó.: Ekki annað). Þm. (M. Ó.) ætti að venja sig af því að vera alt of bráðlátur, því að jeg hefi ekki enn lokið máli mínu. Þetta „ef nauðsyn krefur“ finst mjer vera algerlega óþarft, því að jeg býst við, að löggjafarvaldið ákveði, hvers nauðsyn sje til. Hitt, sem jeg vil að breytt verði, er að orðin „að tryggja aðflutninga til landsins“ falli burt, því að það er ekki annað en upptugga á orðunum í fyrirsögninni. Ef brtt mínar verða samþ, þá ætti upphaf greinarinnar að hljóða þannig: „Enn fremur veitist ráðuneyti Íslands heimild til þess að taka eignarnámi til útflutnings íslenskar afurðir hjá kaupmönnum, fjelögum, framleiðendum eða öðrum, gegn fullu endurgjaldi, að frá dregnu lögboðnu útflutningsgjaldi“ o. s. frv. Það má því heita, að þessar brtt. mínar sjeu að eins orðabreytingar; þær koma í veg fyrir, að það sje endurtekið, sem áður er sagt, og svo verður löggjafarvaldinu falið að segja fullum fetum, hve nær nauðsyn sje til.

Jeg leyfi mjer svo að afhenda hæstv. forseta till. og vonast til, að þær verði samþyktar, þó að þær sjeu skriflegar.