05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 235 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Guðmundur Ólafsson:

Það eru nú þegar orðnar fjörugar umr. í þessu máli út af brtt. nefndarinnar, og lítur út fyrir, að sumir háttv. þm. sjeu ekki alls kostar ánægðir með þær. Við öðru var auðvitað ekki að búast, en í raun og veru er munurinn á þeim og frv. ekki ýkja mikill, þó að þær sjeu miklar fyrirferðar. Þó er með þeim ýmsu breytt til bóta. Það er t. d. bót að því, að eftir brtt. nefndarinnar má ekki veita fje nema að láni, ekki sem óafturkræfan styrk, fyr en það sveitar- eða bæjarfjelag, er hjálpar leitar, hefir veitt dýrtíðarstyrk, minst 10 kr. á hvern mann í bæjar- eða sveitarfjelaginu. Er þetta talsvert aðhald gegn því, að styrks sje leitað úr landssjóði, nema í verulegri þörf.

Það er rangt, sem haldið hefir verið fram hjer í háttv. deild, að brtt. setji takmarkanir fyrir því, að hjálparinnar verði leitað. Því að ef það er rjett, sem líka hefir verið haldið fram og mun hafa við rök að styðjast, að mörg sveitarfjelög sjeu svo vel stæð, að ekki sjeu líkur til, að þau þurfi að taka meira lán en svarar 10 kr. á mann, og sum jafnvel ekkert, þá er það mikill sparnaður fyrir landssjóðinn, ef brtt. verða samþyktar, því að samkvæmt frv. eiga sveitarfjelögin að fá 1/3 af allri upphæðinni ókeypis, en samkvæmt brtt. að eins helming af þeirri upphæð, sem veitt er eftir að veitt hefir verið upphæð, sem nemur 10 kr. á mann. í mjög mörgum tilfellum verður sú upphæð aldrei veitt. Hjer er engin hætta fyrir landssjóðinn, þar sem lánið er veitt gegn 6% vöxtum, og er það síst saman berandi við dýrtíðarlögin frá í fyrra, því að samkvæmt þeim áttu lánin að vera vaxtalaus þangað til tveim árum eftir að ófriðurinn væri úti, og greiðast síðan á 13 árum.

Jeg tel tæpast hættulegt, að nefndin takmarkar ekki lánin að ofan. Svo hefir hæstv. fjármálaráðherra líka lýst yfir því, að lán yrðu veitt ótakmarkað, ef brýn þörf yrði á. Og kemur þá ekki í sama stað niður, hvort honum er leyft það af þinginu, þar sem hann ætlar að gera það hvort sem er? (S. E : En það verður að eins ef um hungursneyð er að ræða). Já. En er þá sú hætta horfin, sem hann heldur nú fram að sje, að skýrslur, er lánbeiðnum fylgja, sjeu svo óáreiðanlegar, að ekkert verði á þeim bygt; ekki mun þó ætlast til þess, að fólk verði látið fylgja þeim, er svo stendur á, sem sýnishorn til sönnunar.

Jeg er hissa á því, að hæstv. fjármálaráðherra skuli ekkert hafa að athuga við 6. gr. frv., því að það getur sannarlega orðið dýrt að framkvæma hana. Hann lýsti yfir því hjer í byrjun þings, að landssjóður hefði tapað á dýrtíðarvinnu hjer 70—80.000 krónum, sem ekki mun ofreiknað, svo að jeg verð að telja það mjög vafasamt, hvort hann hafi varið þar fje landsins með meiri gætni en þótt lánað sje fje gegn vöxtum. Annars man jeg ekki eftir, að það sje siður hæstv. fjármálaráðh., eða stjórnarinnar yfir höfuð, að mæla á móti fjárveitingum úr landssjóði í öðrum tilfellum. Jeg vildi því óska, að jeg gæti komið mjer saman við háttv. meðnefndarmenn mína um að koma fram með brtt. við 6. gr., þegar málið verður til 3. umr., því að mjer finst ákvæði hennar mjög varhugaverð.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) fann fyrst að því, að nefndin hefði komið of snemma fram með álit sitt. Það er sjaldnast fundið að því, að málin komi of snemma frá nefndum, heldur er miklu fremur fundið að því, að þau komi of seint fram. Það var svo að heyra á hv. þm. (M. T.), að hann kynni best við gömlu lögin, því að honum þótti hvorttveggja slæmt, frv. og till. nefndarinnar, og styrkurinn of lágur. En nú er komin full reynsla fyrir því, að sú lánsheimild, sem fyrir var, er ekki framkvæmanleg.

Sami þm. (M. T.) sagði, að auðvelt mundi fyrir bankann að neita sveitarfjelögum um lán, en jeg álít það ekki svo auðvelt, ef trygging er nægileg fyrir hendi og þeir hafa fje til.