10.06.1918
Neðri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (658)

93. mál, bráðabirgða útflutningsgjald

Benedikt Sveinsson:

Mjer virðist ekki alls kostar ljóst orðalagið á þessu frv. Jeg þykist sjá, að tilætlunin sje sú, að landssjóður biði ekki halla af vörum þeim, sem hann kynni að þurfa að láta taka eignarnámi og metnar væru hærra en breska verðinu nemur. En það kemur ekki glögt fram, hvernig landssjóður ætlar að fá upp þennan halla. Setjum svo, að landssjóður láti taka vöru manns eignarnámi og verði hún metin hærra en breska verðinu nemur. Er það þá tilætlunin, að sá maður, sem fær þetta hærra verð fyrir vöruna, skuli greiða til landssjóðs alt það, sem hann hefir fengið fram yfir breska verðið, eða á að jafna hallanum þannig niður, að hann komi á vörutegundina í heild? Mjer skilst, að það hljóti að eiga að jafna gjaldinu niður á alla vörutegundina samkv. frv. Ef ekki á að skilja orðalagið þannig, þá er umsvifaminna að taka það fram berum orðum, að seljandinn sje skyldur að greiða til landssjóðs skatt, er svarar því, sem verðið fer hærra en breska verðið.

Jeg vildi gjarnan heyra skýringu stjórnarinnar á þessu atriði.