05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 237 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Fjármálaráðherra (S. E.):

Jeg skal játa það, að mjer fanst háttv. 2. þm. Húnv. (Gr. O.) ekki líta sínum sparnaðaraugum á þetta mál (G. Ó.: Hefi líklega haft augnaskifti við blessaðan ráðherrann). Það er mjög hætt við því, að bankarnir verði tregir til þess að lána, þegar þeir vita af landssjóðnum.

Og eftir yfirlýsingu þeirri, er bankastjóri Landsbankans gaf í gær í háttv. Nd., þá er enn meiri ástæða til þess að óttast þetta.

Með brtt. háttv. nefndar er gert ráð fyrir takmarkalausri dýrtíðarhjálp, og mætti því alveg eins samþykkja þingsályktun, þar sem ákveðið væri að heimila landsstjórninni að veita alþjóð dýrtíðarhjálp, og þótt stjórnin geti verið þakklát fyrir það traust, sem henni er sýnt með þessu, þá get jeg ekki mælt með því. Þingið á sjálft að hafa dug og djörfung til þess að ákveða, hversu miklu fje skuli varið í þessu skyni og hvernig með málið skuli fara. Best færi því á, ef háttv. nefnd vildi taka brtt. sínar aftur; væri þá hægt að bera sig nánar saman og má ske ná samkomulagi til 3. umr.