10.06.1918
Efri deild: 39. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

93. mál, bráðabirgða útflutningsgjald

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vona, að þetta sje óþarfa hræðsla hjá háttv. þm. Vestm. (K. E), og jeg verð að segja það, að ef brtt. hans verður samþykt, þá efast jeg um, að stjórnin sjái sjer fært að fylgja því fram, að frv. verði samþykt þannig lagað.

Ef háttv. deild getur ekki orðið sammála við stjórnina og háttv. fjárhagsnefnd Nd., þá vildi jeg helst leggja það til, að málinu yrði frestað og reynt að koma á samkomulagi.

En hins vegar vona jeg, að þessari háttv. deild sje alveg óhætt að samþykkja frv. óbreytt, í því trausti, að stjórnin beiti ekki ósanngirni við framkvæmdir þess. (K. E: Ekki ef hún er sjálfráð). Stjórnin er að öllu leyti sjálfráð við framkvæmdir þessa máls. (K. E.: Dómstólarnir geta þó komið til greina). Auðvitað geta þeir komið til greina síðar meir, en þeir grípa þó ekki fram fyrir hendur stjórnarinnar.

En annars er sá ágalli, ef fresta þyrfti málinu, að í rauninni þolir það enga bið. Strax næstu daga þarf að taka til laganna.

Jeg vona því, að frv. verði samþykt óbreytt frá Nd., enda hafði jeg ekki búist við neinum andmælum, nema þá helst út af orðalagi frv., eftir því sem búið var að ræða um málið. Það væri líka mjög óheppilegt, ef deilur risu milli þings og stjórnar út af þessu máli.