29.04.1918
Efri deild: 9. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 720 í B-deild Alþingistíðinda. (710)

24. mál, bæjarstjórn á Akureyri

Flm. (Magnús Kristjánsson):

Jeg verð að biðja háttv. deild afsökunar á því, að jeg á erfitt um mál sökum kvefpestar, og jeg mun því ekki þreyta hana með langri framsögu.

Þetta frv. er aðallega komið fram til að leiðrjetta prentvillu, sem hefir komist inn í lög þau um bæjarstjórn á Akureyri, er samþykt voru hjer á síðasta þingi. Það hefir nefnilega slæðst inn í 4. gr. þessara laga prentvilla, bæjarstjórn fyrir bæjarstjóra; en þótt þessi villa sje lítil, fljótt á litið, þá er hún allmeinleg og raskar svo efni og þýðing laganna, að erfitt er að framkvæma þau.

Úr því að leiðrjetta þurfti þetta, er borin fram sú breyting á lögunum, að lengja um einn mánuð reikningsskilafrest. Er það gert að ráði bæjarstjórnarinnar, er telur þetta heppilegra, og getur það naumast valdið ágreiningi.

Hinar greinarnar eru að mestu að eins gleggra orðalag, svo að síður geti risið ágreiningur út af þeim.

Jeg sje því ekki, að hjer sje um neitt það að ræða, sem geti orkað tvímælis, og því sjálfsagt, að frv. nái fram að ganga, en mjer virðist samt rjettara að vísa máli þessu til allsherjarnefndar að þessari umr. lokinni, enda hafði hún málið til meðferðar á síðasta þingi, og legg því til, að svo verði gert.