29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 730 í B-deild Alþingistíðinda. (743)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Flm. Magnús Torfason):

Þegar skipuð var bjargráðanefnd hjer í háttv. Ed., gat jeg þess, að við hefðum hjer á landi lifað og látið eins og friður væri væntanlegur á hverri stundu, látið hverjum degi nægja sína þjáning, látið reka á reiðanum. Jeg gat þess þá, að þetta mætti ekki lengur svo til ganga, því að eftir því, sem stríðið stæði lengur, hlyti að herða meir og meir að okkur.

Jeg hjelt í einfeldni minni, að síðasti vetur hefði átt að vekja okkur af þessu andvaraleysi, en ef hann hefir ekki gert það, þá hefðu atburðir síðustu viku átt að nægja til þess að sýna oss, að hjer er ekkert gaman á ferðum. Því að nú er það bert orðið, að alvarlegir og erfiðir tímar færast nær og nær oss og að örðugleikarnir á að stýra þjóðarfleyinu milli brims og boða fara vaxandi með hverri líðandi stund. Við megum því alls ekki fresta að búa okkur undir framtíðina, þessa síðustu og verstu tíma.

Frv. þetta á nú að gera oss færari til að bjarga oss, er neyðin kreppir að. Við höfum vonir um sæmilegar nauðsynjabirgðir næsta ár, en hvað þá tekur við vitum við ekki. Hins vegar er það með öllu óvíst, að við höfum nægan farkost til að viða að oss nauðsynjum vorum, og því er það skýlaus skylda vor að sjá um, að hann verði notaður sem allra best og á sem hagfeldastan hátt fyrir þjóðfjelagið í heild sinni.

En það er ekki nóg, að við seilumst til að ná vörunum einhvern tíma á árinu; það ríður á, að flutningarnir gangi sem greiðast. Það getur vel tálgast af okkar litla skipaflota. Einhverju af skipunum kann að verða sökt, og minkað gæti farkosturinn við það, að ófriðarþjóðir teldu óhjákvæmilegt að taka hann í sína þjónustu, án þess að spyrja okkur um leyfi. En auk þessa er það beinn peningasparnaður að flytja sem mest að okkur að sumrinu til. Allir flutningar eru ólíkt kostnaðarmeiri, örðugri og seinlátari að vetrinum, og stundum jafnvel algerlega teptir.

Okkur væri þarft að renna huganum oftar til annara þjóða en raun virðist á, og það eins þeirra þjóða, sem ekki taka þátt í ófriðnum. Meðal sumra hlutlausra þjóða hafa jafnvel efnamenn svo skarðan kost, að það gerir ekki meira en að þeir dragi fram lífið. Þegar við berum okkur saman við þessar þjóðir, hlýtur manni að blöskra allur óþarfinn og allsnægtirnar, sem hjer eru á boðstólum, og sjá, að frv. þetta er ekki ófyrirsynju fram borið.

Aðaltilgangur þessa frv. er að greiða fyrir nauðsynjaaðdráttum. En það er einnig sparnaðartillaga, því að vitanlega kaupir enginn það, sem ekki er til. Og við höfum sannarlega annað að gera við okkar fáu skildinga en að eyða þeim í óþarfa. Það sýna þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið til að hjálpa bjargarvana fólki. Hafa þær verið af alt of skornum skamti og sýnt, að þegar á þessu þingi verður að auka framlögur að stórum mun í því skyni. En síðan frv. kom fram hefi jeg fengið vitneskju um, að full þörf er á að taka mun fastar á þessu máli en gert er í frv. Það verður að sjá um, að leyfi verði að fá til að flytja inn og út hvað sem vera skal. Og það verður að kveða að fullu niður bið svo kallaða „keðjuprang“, eins og gert hefir verið í ýmsum öðrum löndum.

Leyfi jeg mjer svo að leggja til, að frv. verði, að lokinni þessari umr., vísað til bjargráðanefndar. Geri jeg ráð fyrir, að nefndinni sje kunnugt um þær ástæður, gagnvart útlöndum, sem eru til að taka jafnvel enn dýpra í árinni en gert er í frv., en sje mjer þó ekki fært að skýra frá hverjar sjeu, að minsta kosti að sinni.