29.05.1918
Efri deild: 30. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 734 í B-deild Alþingistíðinda. (745)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Flm. (Magnús Torfason):

Jeg gat þess í frumræðu minni, að jeg byggist við, að það þyrfti að herða á þessu frv., en ekki að draga úr því, og jeg vona, að þetta þing skilji svo við, að innflutnings og útflutningsleyfi þurfi fyrir allar vörur. Háttv. þm. Snæf. (H. St.) virðist ekki hafa mikið álit á stjórninni eða handlöngurum hennar, sem í þessu tilfelli mundi verða verslunarráðið eða sjerstök nefnd, sem rjeði inn- og útflutningi, og jeg býst við, að bráðlega verði skipuð. Jeg geri ráð fyrir því, að gerður verði munur á vörum, sem eru gersamlega ónauðsynlegar, og öðrum, sem verður að ákveða um í hvert skifti, hvort flytjast megi inn. Um þær vörur, sem í síðari flokknum eru, kann að verða ákveðið, hve mikið megi flytjast inn, svo að ekki flytjist alt of mikið að af óþarfanum. Jeg fæ ekki sjeð, að stjórninni sje með þessu gefið hættulegt vald. Hún mun ekki fara lengra í að- og útflutningsbönnum en nauðsyn krefur, og leiki vafi á um einhverja vörutegund, hve nauðsynleg hún sje, býst jeg við, að stjórnin taki heldur þann kostinn, að leyfa aðflutninginn. Gróði sumra kaupmanna getur auðvitað minkað, þegar til framkvæmda á þessum lögum kemur. En það er ekkert meira en skeður í öðrum löndum. Jeg veit til þess, að um daginn kom útlendingur í hús hjer í Reykjavik, og var borið fyrir hann te. Þegar hann sá, hve rausnarlega fram var reitt, varð honum að orði við húsfreyjuna: „Ef þetta teborð hefði sjest í Englandi, mundi óðar hafa verið „kuttað“ af yður höfuðið“. Þetta eru vitanlega hreystiyrði, en jeg get þessa til samanburðar á ástandinu hjer og á Englandi.

Frv. þetta er bráðnauðsynlegt af ástæðum, er jeg vil ekki geta um hjer í salnum. En það undrar mig ekki, þótt hv. þm. Snæf. (H. St.) sjái það ekki. Hann sýndi það, er hann bar fram fyrirspurnina um skömtunina á korni og sykri, að hann ber ekki skyn á þessi mál. Það er ekki af því, að þingmaðurinn sje óvitrari en aðrir þingmenn, heldur af hinu, að í þessum málum er hann blindur á báðum.