11.06.1918
Efri deild: 41. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 737 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Forsætisráðherra (J. M.):

Jeg vildi að eins leyfa mjer að lýsa yfir því, að jeg er mjög þakklátur hv. flm þessa frv. Það hefði ef til vill verið ástæða til að gera þessa ráðstöfun miklu fyr, því að þetta er ekki annað en gert hefir verið mjög víða annarsstaðar, að taka fyrir það með lögum, að hægt sje að flytja inn hvaða óþarfa sem er og gera vörur miklu dýrari en ástæða er til. En þetta hefir hvorttveggja viðgengist. Varan er hækkuð með mjög hárri hundraðstölu, eftir því sem einn selur öðrum, uns smásalinn tekur við.

Óþarfur vöruflutningur til landsins gerir hvorttveggja, að tefja flutninga, sem eru nauðsynlegir, og tekur upp mikið skipsrúm. Verði frv. með brtt. samþykt, þá getur orðið fyrirbygt þetta hvorttveggja og auk þess hindraður óforsvaranlegur millimannagróði, þar sem landsstjórnin sjálf getur ákveðið, hve mikið skuli langt á vöruna. Jeg get því ekki hugsað annað en að háttv. deildarmenn sjái, að hjer er ekki farið fram á annað en það, sem sjálfsagt er. Og jeg fyrir mitt leyti vildi mjög sterklega mæla með þessu frv., sem bætir mjög úr með kaup og sölu.

Sumum kann ef til vill að finnast, að verðlagsnefnd gæti sjeð um þetta, en hún getur þó varla gert alt það, sem þarf í þessum efnum. Það þarf að athuga vöruverð frá byrjun og segja fyrir um, hve mikið megi leggja á. Þetta alt er hægt að gera, þar sem nú er komin nefnd, sem veitir aðflutningsleyfi, en til þess, að hún geti haft verulega þýðingu, þarf hún að fá slík lög sem þessi til að styðjast við.