15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 740 í B-deild Alþingistíðinda. (755)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Magnús Torfason:

Eins og hv. þm. sjá, þá hefi jeg leyft mjer að koma fram með brtt. um að orða frv. öðruvísi, og eru brtt. prentaðar á þgskj. 359.

Um fyrstu brtt., um að skeyta 1. gr. framan við frv., skal jeg geta þess, að það er gert samkvæmt tillögu hæstv. forsætisráðherra. Sú grein fer fram á það að breyta 1. gr. núgildandi laga um þetta svo, að í staðinn fyrir orðin „meðan Norðurálfuófriðurinn stendur“ komi: „þangað til öðruvísi er ákveðið“ Eins og lögin eru nú orðuð, er hæpið að ráðstafanir þær, er gerðar hafa verið, geti staðið lengur en Norðurálfuófriðurinn, en eins og gefur að skilja, er nauðsynlegt, að ýmsar ráðstafanir geti staðið lengur. Það sjá t. d. allir í hendi sjer, að jafnstóra stofnun og landsverslunin er orðin, er ekki hægt eða hyggilegt að fella niður samdægurs og friðarsamningar takast. Það gæti beinlínis stafað af því hætta fyrir landssjóðinn. Hann stæði þá uppi með ábyrgðina og tjónið. Að því getur vitanlega enginn þm. stutt; það er skylda vor þm. að sjá um, að tjón landssjóðs verði svo lítið sem unt er. Því er þessi grein rjettmæt.

Önnur greinin er hin sama og frumvarpsgreinin á þgskj. 331. Jeg skal geta þess um það, er sagt var í blaði nokkru og eins hjer í háttv. deild, að þessi grein er eigi sama efnis og sú, sem er í lögum nr. 6, frá 8. febr. 1917, því að eftir þeirri grein má að eins beita þessu ákvæði þegar nauðsyn er á, sakir þess að aðflutningar til landsins eru ekki tryggir, en eins og greinin er orðuð hjer, má beita ákvæðinu þegar stjórnin telur vera þörf til þess. Það þekkja allir orðtakið: „oft er þörf, en nú er nauðsyn“. Þetta ákvæði er rýmra og mætti því vera haganlegra.

Þá er 3. brtt. Er hún gerð í samráði við hæstv. forsætisráðherra. Það þótti rjettara að láta lögin öðlast strax gildi, og þarf eigi að gera greinargerð fyrir því.

Jafnframt skal jeg taka það fram, að jeg tek aftur brtt. á þgskj. 342 sem óþarfar.