15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 743 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Magnús Torfason:

Jeg verð að segja það, að mig undra orð háttv. þm. Snæf. (H. St.), og jeg fæ ekki skilið, að hann geti talað svo sem hann gerði, nema af því, að hann viti ekki hvað er að gerast með þjóðinni, og viti ekki, á hvaða braut verslunin er nú komin.

Háttv. þm. (H. St.) tók það fram, að 1. brtt. á þgskj. 359 gæti verið hættuleg fyrir landið. Jeg skal nú ekki eyða löngu máli til að sýna þörfina á þessari brtt., en jeg vil benda á það, að eftir núgildandi lögum geta kaupmenn strax er Norðurálfuófriðnum linnir flutt til landsins eins mikið af vörum og þeir vilja og orka, en þá getur svo staðið á, og má enda telja víst, að landið eigi miklar vörubirgðir. Kaupmenn fá vörur sínar fyrir lægra innkaupsverð og flytja þær til landsins með minni kostnaði en landssjóður flutti vörur sínar. Það má því öllum vera ljóst, að kaupmenn geta þá selt vörur sínar mikið ódýrara en landssjóður, og hlyti landssjóður því að selja sjer í stórskaða og bíða af bið mesta tjón. Mjer dettur ekki í hug annað en að löggjafar og stjórnin hafi fulla heimild — og enda skyldu — til að verja landssjóð fyrir slíku áfalli. Og þeim mun fremur er það rjett og skylt, þar sem landssjóður hefir flutt og selt þær vörur, sem minstur arður er á, því að bæði fyr og síðar hefir mest verið lagt á ónauðsynjavöru, og hún oft og einatt látin bera alla verslunina. En landssjóður hefir ekki haft óþarfa vöru til sölu. Kaupmenn gætu því hæglega, ef þeir teldu þess þurfa og vildu, selt vörur þær, er landssjóður lægi með, undir verði, en lagt þeim mun frekar á óþarfa varninginn. Þetta má augljóst vera öllum lýð, og því er sjálfsagt við því að gera, og til þess er þessi heimild.

Þá fann sami háttv. þm. (H. St) að því, að orðin „ef þörf gerist“ væru feld niður, en óþarft væri það, því að þetta komst inn að eins í ógáti, því að jeg miðaði brtt. mína við 3. gr. En eins og nú hagar málinu, er hjer að eins um orðabreytingu, en enga efnisbreytingu, að ræða. Óþarfi að tvítaka orðin.

Jeg ætla mjer ekki að fara að verja landsstjórnina fyrir gerðir hennar; bæði er það langt frá umræðuefninu, og eins er hæstv. stjórn sjálf fær um það, en jeg veit ekki til, að stjórnin hafi misbeitt valdi sínu gagnvart nokkrum einstaklingi þjóðfjelagsins; þvert á móti hefir stjórnin fremur gert of lítið fyrir landsverslunina, og það einmitt af því, að hún hefir viljað forðast að troða á tær kaupmanna. Jeg hygg, að landið hafi beðið stórtjón af þessari tilhliðrunarsemi stjórnarinnar. Og það virðist vera sjerstaklega óþarft að koma nú fram með þessa ljettvægu mótbáru, þar sem allir forstöðumenn landsverslunarinnar nema einn eru kaupmenn.

Í sambandi við þetta vil jeg taka það fram, að það er ósköp leiðinlegt að heyra þennan sífelda jarm kaupmanna um, að stjórnin fái alræðisvald yfir verslun landsins. Það er meiningin, að stjórnin notfæri sjer þetta vald, og jeg teldi það verst, ef hún gerði það ekki.