15.06.1918
Efri deild: 45. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 751 í B-deild Alþingistíðinda. (765)

75. mál, heimild til ráðstafana út af Norðurálfuófriðnum

Eggert Pálsson:

Háttv. 6. landsk. þm. (G. B.) virtist mjer ekki ósamþykkur um annað aðalatriðið í ræðu minni, sem sje það, að ákvæði um, að landsstjórnin geti bannað innflutning á vörum til landsins, sje algerlega óþarft, þegar búið er að skipa innflutningsnefnd. Það liggur í augum uppi, að um þetta þarf ekki nýjan lagabókstaf, enda hreyfði háttv. 6. landsk. þm. (G. B.) ekki andmælum gegn því.

Um hitt atriðið, hvort landsstjórninni skuli veitt heimild til að ákveða, hve mikið megi leggja á vöru, snerist ræða hans aðallega. Jeg leit aftur á móti svo á, að þetta heyrði undir verkahring verðlagsnefndarinnar. Háttv. 6. landsk. þm. (G. B) hjelt því fram, að verðlagsnefndin væri jafnnauðsynleg, þótt þetta frv. yrði samþ., væri nauðsynleg til að hafa eftirlit með verðlagi smákaupmanna, og má ske bráðnauðsynlegust til að ákveða verð á innlendri vöru, til þess að trygt verði að hinir leiðu framleiðendur fái ekki of mikið fyrir sína vöru. Þessu má auðvitað halda fram, og það mætti kann ske eins vel halda því fram, að ein einasta verðlagsnefnd væri mjög ófullnægjandi, að það þyrfti helst eina fyrir sjávarafurðir og aðra fyrir landbúnaðarafurðir. Þá yrðu enn fleiri um bitlingana. Nú er það mín skoðun, að verðlagsnefnd eigi að ákveða alt verðlag. Háttv. 6. landsk. þm. (G. B.) hjelt því fram, að verðlagsnefnd væri ómögulegt að setja neinar skorður við álagi stórkaupmanna, en það er misskilningur, og síst skil jeg, að stjórninni yrði það auðveldara. Verðlagsnefnd getur ákveðið verðlag hjá smákaupmönnunum, og girt með því fyrir, að stórkaupmennirnir geti umsett vörur sínar nema með hæfilegu álagi. Þetta hefði verðlagsnefnd getað gert, en hún ljet ekki verða af því. Í stað þess hefir hún einlægt verið að höggva í innlendu vöruna. Útlendu vöruna hefir hún forðast eins og heitan eldinn og látið sig litlu skifta, þótt verð á henni stigi von úr viti.

Ágreiningurinu milli mín og háttv. 6. landsk. þm. (G. B.) er aðallega um það, hve langt verksvið verðlagsnefndar nái; þar sýnist sitt hverjum. Og hvor rjettara hafi fyrir sjer er ekki okkar að dæma um. En hvernig sem á það kann að verða litið, þá held jeg fast við þá skoðun, að verðlagsnefndin sje orðin alóþörf, ef frv. verður samþ., því að þá hefir hún ekkert annað að gera en að vaka yfir verðlagi innlendu vörunnar, sem jeg tel enga þörf á, því að verð hennar hlýtur, eins og líka reynslan hefir sýnt, að hækka eða lækka eftir því, hvort framboð á henni er lítið eða mikið, hvað sem verðlagsnefnd segir.