05.06.1918
Efri deild: 36. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 265 í B-deild Alþingistíðinda. (78)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Magnús Torfason:

Jeg fæ ekki sjeð, til hvers er verið að taka málið út af dagskrá, þegar allir eru dauðir. En jeg skal halda mjer við þingsköpin og að eins koma með persónulegar athugasemdir.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) fann ástæðu til þess að reyna að bera blak af landsstjórninni út af fóðurskortinum á Ísafirði. Hann sagði, að Ísfirðingum hafi verið boðinn fóðurbætir, en þeir hefðu ekki þegið. Þetta er að vísu rjett; en þó ekki nema hálfur sannleikurinn. Grunnvíkingar urðu fóðurlausir og komu til Ísafjarðar, en þá voru Ísfirðingar orðnir fóðurlitlir líka og fóðurþörfin brýn.

Það náði vitanlega ekki nokkurri átt að fara að senda skip eftir fóðurbætinum um hávetur, sem kæmi ekki til baka fyr en eftir heilan mánuð. Kílóið af fóðurbætinum mundi hafa kostað afarfje, svo að ekki hefði hann bætt mikið úr neyðinni. Það sem hjálpaði var, að kaupmenn áttu eftir í lögginni dálitið af fúnum maís og ormamjöli, og við það var bjargast til 7. apríl. En hvað síðar varð veit jeg ekki, því að þá fór jeg hingað áleiðis.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) hneykslaðist á því, að jeg kallaði dýrtíðarstyrkinn blóðpeninga, en jeg ætla mjer að standa við, að það sje rjettnefni. Hvað er það, sem þingið er að gera? Það ætlar að kasta nokkrum krónum í þá, sem vegna dýrtíðarinnar rata í vandræði, en jafnframt ætlar það að taka af þeim þeirra helgustu mannrjettindi. Slíkan styrk kalla jeg blóðpeninga. Það virðist svo sem fólkið, alþýðan, eigi ekki upp á pallborðið hjá háttv. þm. Ak. (M. K).