04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 769 í B-deild Alþingistíðinda. (787)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Hjörtur Snorrason:

Jeg tók eftir því, þegar frv. var útbýtt, að það stendur letrað á það, að það sje flutt af bjargráðanefndinni. Hjer hlýtur að vera um villu að ræða, og í staðinn fyrir bjargráðanefnd hafi átt að standa „meiri hluta bjargráðanefndar“, því að það er hið rjetta. Að minsta kosti kannast jeg ekki við að eiga þann heiður skilinn að teljast flutningsmaður frv. þessa, þótt jeg hafi þá æru að vera í virðulegri bjargráðanefnd þessarar háttv. deildar, því að þótt margt sje vel um frv., þá er jeg því mótfallinn í mörgum atriðum, og get því ekki stutt það með atkvæði mínu, þótt jeg vildi.