04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 779 í B-deild Alþingistíðinda. (792)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Sigurjón Friðjónsson:

Jeg hefi áður látið þess getið, að jeg teldi aðalbjargráðin í því fólgin að styðja atvinnuvegina. Þar sem nú stendur svo á, að síldarútvegurinn er hættulegast staddur af atvinnuvegum okkar, væri illa farið, ef þingið tæki með fljótræði tillögum til að styðja hann yfir örðugleikana. Að vísu er það líklegt, að síldveiðafólkið gæti fengið atvinnu við eitthvað annað, ef síldveiðarnar fjellu niður, t. d þorskveiðar eða landbúnað. En á þessu máli eru fleiri hliðar. Fyrst og fremst er nú svo ástatt um marga síldarútvegsmennina, að þeir mundu verða gjaldþrota, ef þeir gætu ekki gert út í sumar, og bankarnir þá tapa stórfje. Af því leiðir aftur, að miklu færri mundu stunda þennan atvinnuveg framvegis en hingað til. Fjöldinn af þeim, sem gjaldþrota yrðu, myndi hætta þessum atvinnurekstri, og landssjóður þá hafa miklu minni tekjur af síldarútgerð eftir en áður. En þótt jeg líti svo á þetta mál, að frekar skuli því tekið vel enn illa, sje jeg mjer ekki fært að fylgja því, nema með þeim fyrirvara, að vissa fáist um það, að Svíar kaupi fyrir allhátt verð þá síld, sem leyft er að flytja til þeirra, og sjái fyrir flutning á henni sjálfir. Töluverðar líkur munu vera fyrir, að þetta verði, en vissa er ekki enn fengin. Þótt Svíar nú keyptu helminginn af þessum 100 þús. tunnum, er þar með ekki sagt, að fyrirtækið sje áhættulaust, því að eftir er hinn helmingurinn, 50 þús. tunnur. Hjer í landinu er enn mikil síld frá f. á., sem Englendingar eiga, og mun hún vera þeim útföl. Þær birgðir munu að líkindum vera nálægt því að vera nógar fyrir innlenda markaðinn þetta ár. Þess vegna hefi jeg ekki trú á, að markaður verði innanlands svo, að miklu nemi fyrir nýja síld þ. á. Jeg held því, að varla sje gerandi ráð fyrir, að hægt sje að fá það fje á þessu ári, fyrir 25 þús. tunnur síldar í landinu, sem gert er ráð fyrir í greinargerðinni fyrir frv., en af því þarf reyndar engin hætta að stafa, því að líkindum má þá selja hana að ári.

Gert er ráð fyrir, að síld sje keypt fyrir 6 miljónir króna. Upp í það kemur frá Svíum 4.250.000,00 kr. með 85 kr. verði á hverja tunnu, fyrir innanlandssölu ½ milljón kr., og auk þess er gert ráð fyrir að selja 25 þús tunnur til Ameríku fyrir 1.250.000,00 kr. Með þessu móti mundu 6 miljónirnar hafast upp. En áætlunin er hvergi nærri óyggjandi. Ameríkusalan er áætluð alveg út í bláinn. En ef Svíþjóðarsalan er örugg, er hættan þó ekki mikil. Þótt það ætti að notfæra 50 þús. tn. innanlands, þá mundi það takast með tímanum. En verðið yrði að vera töluvert vægara en áætlað er. Við það mundi tap landssjóðs verða meira, en gróði einstakra landsmanna yrði að sama skapi meiri. Og þó að varið væri talsverðu fje af landssjóði til að styrkja þennan atvinnuveg í bili, jafnvel upp undir 1 miljón, þá sje jeg ekki, að það sje nein frágangssök.

Að lokum skal jeg geta þess, að jeg tel sjálfsagt, að hagnaðurinn, sem kann að verða, lendi allur í hlut landssjóðs, þar sem hann greiðir alt tapið, ef tap verður. Jeg mun því greiða atkvæði á móti 7. gr.