04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (793)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Guðmundur Ólafsson:

Jeg hafði ekki ætlað mjer að taka til máls, en ‚ræða háttv. formanns bjargráðanefndar (G.G.)var svo lituð, að ekki er vanþörf á að fara nokkrum orðum um málið.

Hann byrjaði á að lýsa yfir því, að frv. væri í raun og veru flutt af báðum bjargráðanefndum, þótt það að formi til væri að eins flutt af bjargráðanefnd Ed. Þetta mætti skilja svo, að allir nefndarmenn hafi verið samdóma, að undanteknum 5. landsk. þm. (H. Sn.), sem nú hefir skýrt háttv. deild frá afstöðu sinni. En því er ekki að leyna, að það er alt annað en jeg vilji láta telja mig einn af flutningsmönnunum. Að bjargráðanefnd Ed. flytur málið mun stafa af því, að þar voru tveir menn, formaður nefndarinnar (G. G.) og háttv. þm. Ak. (M. K.), fúsari til fylgis við málið en nefndarmenn neðri deildar.

Aftur gerði jeg það, sem í mínu valdi stóð, til þess, að málið væri fyrst borið fram í Nd, því að er skoðun mín, að slík frv. sem þetta eigi að hefja göngu sína þar, svo að mótmælalaust er það ekki flutt af bjargráðanefnd þessarar deildar. Það mun raunar ekki hægt að segja, að nefndin hafi klofnað um málið, því að enginn nefndarmanna hafði á móti því, að mál þetta kæmi til athugunar og meðferðar þingsins.

Yfirleitt legg jeg litið upp úr áætlun um og vissu þeirri, sem hinir sönnu flutningsmenn frv., háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) og hv. þm. Ak. (M. K.) færa fyrir því, að landssjóður verði vel af með síldina. Það er að vísu von um það, að selja má fyrir sæmilegt verð 50.000 tunnur til Svíþjóðar, en það er engin vissa fyrir því, hvernig það gengur að koma þeim þangað.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) fullyrti, að selja mætti 25.000 tunnur til Ameríku, en þær fullyrðingar dreg jeg í efa. Hann ljet að vísu svo, sem hann bæri gott skyn á málið, og taldi það ekki geta komið til mála, að deildin væri svo illa skipuð, að hún snerist móti málinu. En jeg lít nú samt svo á, að ástæður þessa háttv. þm. (M. K.) hafi ekki verið til að gefa rjettan skilning á málinu, því að þær voru öllu frekar fullyrðingar en sannanir. Jeg get ekki sjeð annað en ef líklegt er, að þetta yrði til gróða fyrir landssjóð, þá gæti það eins orðið fyrir framleiðendur.

En að þetta sje gert fyrir fátækari útgerðarmennina eingöngu, finst mjer ekki geta komið til mála, því að sjálfsögðu gefur landsstjórnin reglur fyrir því, hve margar tunnur hver útgerðarmaður má flytja út af þeirri síld, sem vissa er um að seljanleg sje erlendis. Það getur því ekki komið til mála, að að eins 1 eða 2 útgerðarmenn fái að flytja 50.000 tunnur af síld til Svíþjóðar; það væri líkt með það og ef útflutningur á þessum 1.000 hrossum, er flytja má til Danmerkur, væri leyfður nokkrum hreppum, en aðrir fengju ekki að láta neitt.

Mjer finst því, að það mætti að sama gagni koma, að landsstjórnin sæi um útflutning og sölu á eins miklu af síld og hægt er að selja, og jafnaði svo verðinu niður á sama hátt og kjötverðinu síðastliðið haust.

Stjórnin gæti þá gert alt til að greiða fyrir sölunni, án þess að landssjóður yrði kaupandi, og sömuleiðis gæti hún fyrirbygt það, að einn veiddi alt, sem út flyttist. En gangi salan vel, þá væri það mestur hagur framleiðendanna, að landssjóður hefði ekki gerst kaupandi.

Eftir mínu áliti eru það miklu lakari kjör fyrir landssjóð að fá 100.000 tunnur fyrir sama verð og 120.000 tunnur, og skil jeg ekki, hvers vegna sá kostur er nú tekinn og talinn öllu betri í greinargerð frv., fyrst hitt stóð til boða hjá fulltrúum síldarútgerðarmanna, en þeir hafa víst í raun og veru töglin og hagldirnar í þessu máli. Annars verð jeg að segja það, að mjer finst vera hver höndin upp á móti annari hjá formælendum frv. Í öðru orðinu er þetta talið áhættulaust og viss gróðavegur fyrir landssjóð, en í hinu orðinu er það talið ófært fyrir framleiðendurna, og svo til uppfyllingar þessum sundurleitu ástæðum er verið að gera ráð fyrir, ef skaði verði á sölunni, að þá muni hann verða endurgreiddur af útgerðarmönnum síðar. En í slíku vandamáli sem þessu álít jeg ekki viðlit að fara eftir svo völtum og rakalausum staðhæfingurn.

Jeg þarf svo ekki að segja fleira, en læt mjer nægja að vitna til orða háttv. 1. þm. Rang. (E. P.), og er jeg honum sammála um það, að ekki komi til mála að samþykkja frv. þetta fyr en vissa er fengin fyrir sölunni til Svíþjóðar.