04.07.1918
Efri deild: 57. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 794 í B-deild Alþingistíðinda. (797)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Frsm. (Guðjón Guðlaugsson):

Jeg þarf ekki mikið að segja; vil að eins athuga ofurlítið ummæli háttv. 2. þm. Húnv. (G. Ó.) um flutning málsins.

Það varð að samkomulagi í bjargráðanefndum beggja deilda, án þess að atkvæðagreiðslu væri óskað, að málið yrði flutt hjer í háttv. Ed. Þetta kom til meðal annars af því, að sá, er hafði kynt sjer málið best í háttv. Nd., hafði ekki tíma til þess að hafa framsögu í því, vegna ýmsra annara þinganna. Því var flutningurinn falinn oss efri deildar mönnum.

En á hinn bóginn var litið svo á í nefndinni, og á móti því hreyfði enginn mótmælum, að sjálfsagt væri að lofa málinu að ganga fram á leið fyrst um sinn. Þó voru það einstöku menn, sem komu svo heiðarlega fram, eins og hv. 1. landsk. varaþm (S. F.) að taka það fram, að óvíst væri um fullnaðaratkvæði hans með frv., fyr en vissa væri komin um söluverð þeirrar síldar, sem seld verður til Svíþjóðar. Nú er sjeð, að verðið verður hærra en nefndin þorði að áætla, svo að engin ástæða er til þess, að þeir greiði nú ekki lokaatkvæði með frv., og það vænti jeg að allir góðgjarnir og greindir þm. geri.