06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (802)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Magnús Torfason:

Aðalákvæði frv. eru í 2. gr.; þau hljóða um það, að keyptar skuli 100 þús. tunnur af síld, 50 þús. fyrir 75 aura hvert kg. og aðrar 50 þús. fyrir 45 aura hvert kg. Það, sem aðallega hefir verið haft á móti frv., er, að áhættan, sem því fylgir, sje svo mikil. Um þetta hefir verið deilt. Meðal annars hefir verið sagt, að áhættan hljóti að vera mikil fyrir landssjóð, þar sem hún er mikil fyrir síldarframleiðendur; ef engin áhætta hefði verið fyrir þá, mundi frv. aldrei hafa komið fram. En þetta þarf alls ekki að fara saman. Galdurinn er sá, að síldarframleiðendurnir hafa engin tök á að ná sínu upp ef síldin selst illa, en landssjóður hefir aftur margar leiðir til þess að bæta sjer skaðann, ef einhver verður. Landssjóður gæti alveg bætt sjer tapið með sköttum á síldarútgerðinni síðar meir. Hingað til hefir þingið ekki verið svo óviljugt að fara þá braut. Með öðrum orðum, áhætta landssjóðs getur að eins orðið í svip, en aldrei í lengd. Það yrði því engin þjóðhætta að því að samþykkja frv. Hins vegar gæti á margan hátt leitt stórtjón af því að samþykkja það ekki. Fyrir landssjóð mundi það verða beint og óbeint stórtjón, ef síldarútveginum er ekki hjálpað fram hjá þeim boðum, sem fram undan liggja, og afturkippur kæmi í hann. En það er ekki nóg með hættuna fyrir landssjóð og þá, sem stunda þennan atvinnuveg. Landbúnaðurinn gæti beðið af því mikið tjón, og þá sjerstaklega hrossaeigendurnir. Síldin er eini innlendi fóðurbætirinn, sem til er. Ef engin síld veiddist, gæti svo farið, að hrossaeigendur fengju þá ánægju að skoða horgrindur hrossa sinna í hverri laut. En ef nóg síld veiðist, er engin hætta á horfelli, svo framarlega sem menn hafa hugsun á að ná sjer í fóðurbæti nógu snemma, og atburði til þess. Jeg vil segja, að því meira sem tjón landssjóðs yrði í svip af síldarkaupum, því meiri yrði gróði landbúnaðarins vegna hins ódýra fóðurbætis. Nú, þegar enginn útlendur fóðurbætir fæst, neyðast menn til að nota þann innlenda, og er það argasti skrælingjaskapur, að það skuli þurfa neyð til þess að kenna mönnum að nota hann. Þá er annað. Því meira sem tjón landssjóðs verður, því ódýrari verður síldin til manneldis. Það væri ekki lítils virði, ef hægt væri að kenna okkur Íslendingum síldarát. Þegar á alt er litið, er því ekki um nema eina áhættu að ræða í þessu máli, þá að fella frv.

Á það hefir verið minst, að verðið á síldinni væri nokkuð hátt. Jeg skal ekkert um það segja, hvort ekki mætti lækka verðið lítils hattar, en ef það yrði gert, verður að breyta ákvæðum 4. gr., um kaupverð frambjóðenda. Lágmarkið fyrir því verður að lækka jöfnum skrefum og kaupverð landssjóðs, en það væri afarleitt.

Það hefir verið sagt, að ákvæði 6. gr. bindi landssjóði miklar byrðar; lánstraust landssjóðs sje búið að þenja svo langt, að ekki sje viðlit að fullnægja þeim ákvæðum. Jeg er ekki svo kunnugur, að jeg geti sagt með vissu, hvort þetta muni vera rjett. En mikill hluti þess fjár, sem landssjóður á að greiða síldarútvegsmönnum, mun fara til bankanna, og er mjer óskiljanlegt annað en að landssjóður geti notið sama lánstrausts hjá bönkunum og þeir. Bankarnir þurfa ekki annað en að færa skuldir útgerðarmanna yfir á reikning landssjóðs.

Þá hefir loks verið talað um, að ekki sje rjett, að landssjóður taki fjórða hluta af hagnaðinum, sem kynni að verða. Jeg hefi aldrei litið svo á, sem hjer væri um gróða „spekúlation“ að ræða fyrir hönd landssjóðs, en í sambandi við slíkt fyrirtæki sem þetta verða auðvitað ýmiskonar útgjöld og fyrirhöfn, sem hvergi kemur til reiknings, og hefi jeg litið svo á, sem 1/4 af arðinum ætti að koma upp í það. Það er ekki “spekúlations“-gróði, heldur ómakslaun, og skaðlaus á landssjóður að skilja við þessa verslun, ef einhver ágóði verður.

Fleira skal jeg ekki tína til að sinni, þó að langt mál mætti um þetta alt tala, en jeg vona, að frv. fái greiðan byr gegnum deildina.