06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 807 í B-deild Alþingistíðinda. (806)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Eggert Pálsson:

Jeg vil, áður en jeg sný mjer að málinu sjálfu, gera stutta athugasemd, sem ekki kemur því beint við. Mjer var borið það á brýn við 1. umr. málsins, af háttv. andstæðingum mínum, að jeg hefði talað með æsingi, en hins vegar var skorað á mig að tala hærra. Nú vil jeg spyrja háttv. andstæðinga mína, hvort þeir vilji heldur, að jeg tali í lágum róm eða háum, því að jeg hefi bæði bassarödd og diskant. (M. K.: En vantar millirödd?). Já, en mjer er illa við, að það verði kölluð æsing, þótt jeg tali nú nokkuð hátt.

Háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) og háttv. þm. Ak. (M. K.) gerðu mjer þann heiður um daginn, þegar jeg var dauður, að bauna báðir á mig. Jeg skrifaði ekkert af því niður, sem þeir sögðu, en fanst „summa summarum“ af því öllu saman vera það, að jeg væri helst til lítill „spekúlant“ og íhaldssamur hvað fje landssjóðs snerti. Jeg skal kannast við þetta. Hitt finst mjer eðlilegt, að háttv. andstæðingar mínir, sem báðir eru kaupmenn, sjeu hjer ódeigari. Þetta fanst mjer nú vera aðalásökun þeirra í minn garð, en jafnframt því, sem þeir kváðu mig deigan, gat jeg ekki betur heyrt en að þeir vörpuðu hrósyrðum til mín við og við.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) kannaðist við það, að hjer væri talsverð áhætta á ferðum, en hjelt því jafnframt fram, að landssjóður ætti að taka hana á sig fremur en einstaklingarnir, og gæti hann náð sjer upp síðar á síldarútvegsmönnum, ef hann vildi. Þetta kann nú að vera. En jeg man nú svo langt, að áður, þegar þessi útvegur stóð í blóma, þá lá hjer fyrir frv. um að auka síldartollinn, og man jeg þá ekki betur en að háttv. þm. Ísaf. (M. T.) væri þá á móti tollinum, já, berðist á móti honum með oddi og egg. Annars játa jeg, að jeg vil gjarnan eiga eftirkaup við þennan háttv. þm. (M. T.) í „privat“-sökum, en síður í pólitískum sökum.

Sami háttv. þm. (M. T.) skaut því fram, að það væri lífsnauðsyn fyrir hrossaeigendur, að síldarútvegurinn stöðvaðist ekki og frv. næði fram að ganga. En jeg hygg nú, að nóg síld væri til handa hrossunum fyrir í landinu, svo að ekki þyrfti að fara að veiða nýja síld vegna þeirra.

Annars man jeg ekki til þess, að hv. þm. (M. T.) flytti síldarfóðurbæti frá Reykjavík og austur í Rangárvallasýslu, þegar hann átti þar heima og við vorum grannar. Jeg held, að hann hafi þá ekki keypt eina einustu síldartunnu til fóðurbætis, þótt hann virðist nú vera orðinn annarar skoðunar um nytsemi síldar til skepnufóðurs. Sú breyting hefir orðið á honum síðan hann kom á Ísafjörð. En ætti hann enn þá bú á sama stað og áður, þá hugsa jeg, að hann mundi ekki gera mikið að því að flytja síld upp í sveit. Hann mundi áreiðanlega horfa í þann flutning, er hann vissi, hve mikið legst á hvert kílóið af síldinni, þegar á að fara að flytja hana þannig langar leiðir.

Þá talaði háttv. þm. (M. T.) um það í þessu sambandi, að brýn nauðsyn bæri til þess, að kenna fólkinu að eta síld. Jeg þekki nú engan skóla, sem kennir slíkt, og jeg hugsa, að meðan ekki eru allar bjargir bannaðar þá þurfi enginn að vænta þess, að síldarát útbreiðist meðal almennings öðruvísi en smátt og smátt.

Annars er alveg það sama að segja um málið í heild sinni eins og var við 1. umr. Það er enn sama óvissan og þá um síldarútflutninginn til Svíþjóðar, hvorki búið að semja um verð á henni þar nje vissa um útflutning þangað. Hvað svo söluna til Ameríku snertir, þá er þar einnig um sömu óvissuna að ræða. Og sje markaður fyrir síld opinn í Ameríku, þá geta þeir, sem ekki hafa selt landssjóði síld sína, boðið hana fram þar, og það fyrir lægra verð heldur en landssjóður getur staðið sig við að selja fyrir.

Undir umræðunum hefir ekki neitt nýtt atriði komið fram, sem gæti stutt frv., og allar þær athugasemdir, sem jeg hefi við það gert, standa með öllu óhraktar. Það er því óþarft fyrir mig að endurtaka nokkuð af þeim, heldur nóg að minna á þetta.