06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 809 í B-deild Alþingistíðinda. (807)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Halldór Steinason:

Það var háttv. þm. Ísaf. (M. T.), er gaf tilefni til þess, að jeg bað um orðið, en háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hefir síðan að mestu svarað honum, svo að jeg get verið fáorður.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) kannaðist við það, að áhætta væri að frv. þessu fyrir landssjóð, en hann taldi þá áhættu að eins vera í svip. Við skulum gera ráð fyrir, að landssjóður tapi 3 milj. kr. á þessu. Þá segir háttv. þm. Ísaf. (M. T.), að það sje að eins í svip, því að það megi altaf leggja skatt á síldarútveginn, til þess að ná inn þessu tapi. En þótt hægt sje að segja, að þessi leið sje fær, þá hefir reynslan sýnt, að hún er býsna erfið og torfær, því að hve nær sem hefir átt að hækka skatta á hærri gjaldendum þá hefir það átt mjög örðugt uppdráttar.

Annars eru harla mismunandi skoðanir um þetta mál; sumir líta svo á, sem málið sje lítið, óbrotið og jafnvel sjálfsagt, en aðrir telja það stórt, þýðingarmikið og jafnvel varhugavert. Það kemur og fram, að það er ósamræmi um málið meðal flutningsmanna sjálfra. Sumir þeirra halda því fram, að frv. sje nauðsynlegt vegna síldarútvegsins, en hins vegar sje engin hætta á ferðum fyrir landssjóðinn, þótt það verði samþykt, og háttv. þm. Ak. (M. K.) gekk svo langt um þetta, að hann hjelt því fram, að hið versta, er gæti skeð fyrir landssjóðinn, væri, að hann tapaði engu á frv. En aðrir meðhaldsmenn frv., eins og háttv. þm. Ísaf. (M. T.), viðurkenna, að áhætta fylgi frv. Jeg fæ nú ekki skilið það, ef engin áhætta fylgir frv. fyrir landssjóðinn, hver vinningur er að því fyrir síldarútvegsmenn. Nei, sannleikurinn er víst sá, að bæði síldarútvegsmönnum og flutningsmönnum frv. er það ljóst, að áhætta fylgir frv. á meðan ekki er fengin skýlaus vissa um, að hægt sje að selja síldina til Svíþjóðar, og um það fæst ekki vissa fyr en samningar eru gerðir.

Flutningsmenn frv. halda því fram, að ef það verði samþ., sje minni síldarútvegsmönnum hjálpað til að halda uppi útgerðinni, þar sem þeir þá eigi víst að fá sama verð fyrir síldina eins og hinir stærri útgerðarmenn. Þetta er rjett athugað. En hið sama vinst með því, að landsstjórnin taki að sjer söluna á síldinni og jafni síðan söluverðinu niður á seljendur. Svo framarlega sem engin áhætta er samfara þessum síldarkaupum, þá er það ljóst, að þessi leið yrði báðum aðiljum hagkvæmari.

Jeg kannast við það, að það sje skylda þings og stjórnar að hlynna að einstökum atvinnugreinum.en sú aðhlynning að einni atvinnugrein er því að eins rjettmæt, að hún komi ekki niður sem skellur á aðrar atvinnugreinar, en það hlyti hún að gera þegar landssjóður leggur stórfje fram í því skyni. Þegar um bjargráð er að ræða, verður að gæta varúðar og gæta þess, hversu mikil nauðsyn er á þeim og hve mikið gagn leiðir af þeim móts við fje það, sem til þeirra er lagt. Hjer þykir mjer björgunarupphæðin, 6 milj kr, mikil, og ef illa fer, kemur hún hart niður á landssjóði og landsbúum. Hjer veltur alt á því, að vissa fáist um síldarsöluna til Svíþjóðar, því að fáist vissa um hana, þá er áhættan ekki orðin meiri en það, að unt er að samþ. frv, en auðvitað að sjálfsögðu með þeirri breytingu, að 7. gr. verði feld, því að ef nokkur gróði yrði af þessari síldarsölu, þá virðist sjálfsagt, að hann lendi hjá þeim, sem áhættuna ber, þ. e. í þessu tilfelli landssjóði.