06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 811 í B-deild Alþingistíðinda. (808)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Magnús Torfason:

Háttv. þm. Snæf. (H. St) þóttist ekki skilja það, að síldarútvegsmenn gætu tapað, þótt landssjóður tapaði ekki. Þetta er þó ofureinfalt mál. Smáir og fátækir síldarútvegsmenn þora ekki að ráðast í útgerð, ef þeir hafa ekki vissu fyrir því, að þeir geti selt síldina. Og þeir fá ekki heldur lánstraust til þess að reka útgerðina, ef þá vissu brestur. Jeg veit dæmi þess, að minni útgerðarmenn hafa orðið að selja tunnur og salt undir sannvirði, einvörðungu af því að þá brast lánstraust til þess að geta legið með birgðarnar. Það má því vera öllum ljóst, er nenna og geta hugsað, að ef landið hleypur ekki undir bagga, þá lendir síldarútvegurinn í fárra manna höndum. Og það ættu þó allir að geta skilið, að ekki væri það bolt eða heppilegt fyrir landið, einkum að því er snertir atvinnu við síldveiðarnar eða verkun síldarinnar. Öðru er óþarft að svara í ræðu þessa háttv. þm. (H. St.).

Þá kem jeg að háttv. 1. þm. Rang. (E. P.). Hann tók það rjettilega fram, að jeg hefði sagt, að landssjóður gæti beðið tjón af síldarkaupum í svip. En jeg veit ekki, hvert spor við getum stigið, hvorki fram nje aftur, til framkvæmda eða athafnaleysis, án þess að ætíð geti verið meiri eða minni áhætta á ferðum. Það er ekki hægt að snúa sjer við í lífinu án þess, nema fyrir þann, er ætíð lifir á föstu kaupi einu saman, hvort sem það er greitt af einstökum manni eða því opinbera. Það er ofureinfalt að tapa miklu fje á því, að þora ekki að ráðast í framkvæmdir, og jeg er ekki viss um, nema háttv. 1. þm. Rang. (E. P) væri mun ríkari en hann er, ef hann hefði ekki svo dyggilega fylgt þeirri reglu, að hætta engu. En um landssjóð stendur öðruvísi á en um einstaklinginn; landssjóður getur altaf náð sjer niðri, þótt hann bíði halla, og það á hann að gera. Við vitum, að síldarútgerð er misbrestasöm atvinna; í ár getur verið hagur að henni, en að ári tap. En nú hagar svo til, að Alþingi kemur saman einmitt á þeim tíma, þegar hægt er að sjá, hvernig síldarútvegnum reiðir af, og því er altaf hægt um vik að leggja á bann, ef vel árar, fyrir tapi því, er af þessu frv. kynni að leiða.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) neri mjer því um nasir, að jeg hefði barist á móti síldartollinum á Alþingi 1916—1917. Það er satt mál, að jeg var á móti síldartollinum, og tel jeg mjer heiður að því. En hann rakti ekki sögu þá nógu nákvæmlega. Hann gat þess ekki, hver ástæða mín var til þess. En ástæða mín var sú, að yfir stóðu stríðs- og hættutímar, og það var ekki hægt að sjá, hvernig síldarútgerðinni farnaðist næsta sumar. Það kom og á daginn, að jeg hafði rjett fyrir mjer, því að næsta þingi datt ekki í hug að hreyfa síldartollinum. Og eitt atriði var mjög athugavert við þetta tollmál. Það átti að skifta tollinum í tvent, og voru borin fram tvenn lög. Önnur þeirra voru um að endurgreiða innlendum mönnum tollinn að nokkru, en á meðan við vorum að afgreiða tollfrv. sjálft hjer við 3. umr. í háttv. Ed., þá drápu háttv. þm. í Nd. endurgreiðslulögin. Þetta var pólitík, sem jeg mundi bera kinnroða fyrir.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) sagði, að það væri ekki gott að eiga pólitísk eftirkaup við mig. Eigi hann við síldartollsfrv., þá sagði jeg, að jeg skyldi greiða atkv. með síldartolli, ef stjórnin sæi sjer fært að leggja frv. um það fyrir þingið. Til þess hefir ekki enn komið, og jeg því ekki haft tækifæri til að bregðast heiti mínu. Annars hefi jeg ekki enn snúist í málum, svo að óþörf eru slík ummæli. Hins vegar má skilja þessi ummæli háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) á þá lund, að jeg hafi snúið á hann hjer í þinginu — jeg man nú reyndar ekki eftir því — en ef svo væri, þá væri hann bara minni þingmaður en jeg.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) vildi halda því fram, að jeg væri ekki fær til þess að dæma um landbúnaðinn, og að jeg, er jeg bjó í Rangárþingi austur, hefði ekki notað fóðurbæti. En þetta er rangt. Jeg var þvert á móti fyrstur allra til þess að nota fóðurbæti að ráði, er jeg bjó þar eystra. Jeg sá, að það var ódýrara að kaupa kom í Reykjavík til fóðurbætis og flytja það austur í Rangárvallasýslu heldur en hafa fólk við heyskap í Safamýri. Þó kostaði smjörpundið þá að eins 70 aura. Og jeg framkvæmdi þetta, sýndi það í verkinu. En nú er smjörið margfalt dýrara, 3 kr. pundið. (E. P.: Ekki fæst smjör af hrossum). Nei, en kjöt og peningar tiltölulega eins miklir, og síldin er ódýrari fóðurbætir en sá, er jeg notaði, er jeg hokraði þar fyrir 15 árum.

Sami háttv. þm. (E. P.) talaði mikið um það, að ekki væri unt að kenna fólki að borða síld. En upplýst get jeg hann um það, að síldarát er að breiðast út meðal fólksins; t. d. hafði jeg þá ánægju að senda eina tunnu af síld austur í Rangárvallasýslu, sem ætluð var til manneldis. Það hefir og verið samþykt hjer till. um almenningseldhús, og jeg hefi litið svo á, sem það væri ætlunin að senda einhvern utan til þess að kynna sjer matgerð, og þá fyrst og fremst síldarmatgerð.

Annars vill háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) láta fara með mál þetta eins og kjötsöluna, en mál þetta er alt annars eðlis. Hjer er um afurðir að ræða, er fyrst verður að afla, en kjötið er á því þurra. Og ef þetta frv. nær ekki fram að ganga, þá verður ekki aflað síldarinnar nema að litlu leyti.

Fleiru er óþarft að svara þessum hv. þm. (E P.).

Þá er hæstv. fjármálaráðherra. Mjer fanst hann taka bæði dauflega og stirðlega í frv. Mjer datt ekki í hug, að hann mundi strax lýsa yfir því, að hann væri á móti málinu og vildi ekki greiða því atkv. út úr deildinni. Það virðist sýnilegt, að hann ætli að taka að sjer fulla ábyrgð á málinu. Jeg vissi ekki, að hann mundi, jafnórætt og málið er, sýna það, að hann væri þvílíkur kjarkmaður, að taka ábyrgðina strax á sig, og það alveg að nauðsynjalausu, þar sem hann gat látið málið eiga sig til 3. umr., að brtt. hans kæmu fram. En jeg heyrði, að hann lagði áherslu á það, að landssjóði væri fjár vant, og mjer skilst ekki betur en að því hnígi brtt. hans við 7. gr., og væri þá eðlilegast og rjettast, að hann bæri sig um það efni saman við flm. frv., sem og aðrar brtt. sínar.

En þar sem jeg þykist vita, að hæstv. fjármálaráðherra komi fram með þessar brtt. við 3. umr., þá finn jeg ekki ástæðu til þess að ræða um þær að sinni.