06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 815 í B-deild Alþingistíðinda. (809)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Fjármálaráðherra (S. E.):

Mjer komu harla að óvörum ummæli hv. þm. Ísaf. (M. T ), þar sem jeg gat þess að eins, að jeg mundi koma fram með brtt. við frv. við þriðju umræðu og jafnframt greiða því atkvæði við aðra umr., enda ekki vel þægilegt að koma fram með brtt. við 3. umr. þessa máls, ef það yrði felt nú. En mig furðar það, þar sem um jafnstórt mál og þetta er — það skiftir miljónum króna — að það eigi að hvíla yfir því svo mikil helgi, að það sje skoðuð sem móðgun, þótt ráðherra ætli að koma fram með brtt. við það. Mjer þykir það hart, jafnvarlega og jeg talaði, að farið sje að minna mig á ráðherraábyrgð, en jeg skal lýsa yfir því, að jeg er með öllu óhræddnr við þá ábyrgð.

Háttv. þm. Ak. (M. K.) var að tala um það, að fjármálaráðherra yrði að hafa víðsýni og verslunarvit. Jeg ætla mjer ekki að dæma um víðsýni og verslunarvit mitt, en jeg verð að tala með þeirri viðsýni og því verslunarviti, sem mjer er gefið. Og það er þingsins sjálfs að ákveða það, hvort það telur þá víðsýni og það verslunarvit nægja, eða hvort það þurfi víðsýni og verslunarvit í fjármálaráðherrasætið. En við þann dóm bið jeg mjer engrar vægðar. Jeg held fram þeim skoðunum, sem jeg tel heppilegastar og affarasælastar fyrir land og lýð, án tillits til þess, hvort þær falla í geð meiri hluta eða minni hluta þingsins. (M. T.: Virkilega?). Og það munu háttv. þm. verða varir við fyr eða síðar.

Þótt gengið væri að því, að telja mætti, að 4½ milj. kr. fengist fyrir síld til Svíþjóðar, þá vantar þó l½ milj. kr. á það, er landssjóður þarf að leggja fram, og háttv. þm. Ak. (M. K.) getur ekki fært neinar sannanir fyrir því, að unt sje að selja síldina. Alt um síldarsöluna til Ameríku eru staðlausar fullyrðingar, sem að vísu geta ræst, en alveg eins geta að engu orðið. Sama er að segja um þá síld, sem á að selja hjer á landi. Enginn veit, hversu mikið er hægt að selja af henni nje fyrir hvaða gjald.

Og þótt landssjóður geti selt 50 þús. tunnur til Svíþjóðar, þá gæti hæglega svo farið, að landssjóður yrði að borga síldina til útgerðarmanna löngu áður en gjaldeyrir berst frá Svíum. Ef landssjóður liggur með síldina hjer — til útflutnings til Svíþjóðar — og hún skemmist á meðan, hver á þá að borga þær skemdir? Jeg sje ekki annað en að landssjóður yrði að gera það.

Jeg sje ekki ástæðu til að endurtaka það, sem sagt hefir verið, en augljóst er það þó, að áhætta fylgir frv. þessu. Það sjest best á því, að síldarútvegsmenn fylgja fast frv. og biðja landssjóð hjálpar; það mundu þeir ekki ella gera. Ef hjer væri ekki um þetta að ræða, þá mundi síldarútvegsmönnum ekki vera málið jafnmikið áhugamál eða viðkvæmt mál.

Svo framarlega sem útlitið verður gott, munu bankarnir styðja smærri útgerðarmennina engu síður en hina stærri. Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) talaði um, að bankarnir myndu sýna landsstjórninni alla greiðvikni, því að þeim væri áhugamál, að frv. næði samþykki. Jú, vitanlega er þeim það áhugamál. En af hverju ? Af því að hjer er áhætta á ferðum. Ef ekki væri áhættan, hefði frv. aldrei komið fram.

Annars skal jeg játa, að mjer þótti þeir aðalflutningsmenn frv., háttv. þm. Ak. (M. K.) og háttv þm. Ísaf. (M T.), taka fullhart á brtt., sem jeg boðaði að væru í vændum. Jeg vil draga úr áhættu landssjóðs. Mjer skildist háttv. þm. Ak. (M K.) líta svo á, að ákvæðin í 6. gr. um borgunarskilmálana væru ekki nein aðalatriði. Till. til breytingar á þeim ætti því ekki að vera honum sjerlegur þyrnir í augum.

Það hefir komið fram ósk um, að málið verði afgr. hjeðan úr deildinni þegar eftir þessa umr. Jeg held, að það væri mjög óheppilegt að fara svona geyst. Frv. ætti ekki að afgreiða frá Alþingi fyr en vissa er fengin um, hvað fæst fyrir sænsku síldina. Mun þá frv. fá betri byr, ef meira fæst fyrir hana en búist hefir verið við. Jeg hygg því, að það væri ráðlegast fyrir flytjendur þessa máls, að hraða því ekki alt of mikið, þegar þingið er orðið sammála um það, að hægt sje afgreiða það á einum degi, ef þörf verður á. Jeg vona, að 3. umr. verði höfð á venjulegum tíma, svo að kostur gerist á að gera brtt. Slíkt stórmál sem þetta má ekki afgreiða í flaustri.