12.06.1918
Efri deild: 42. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

4. mál, almenn dýrtíðarhjálp

Framsm. (Sigurjón Friðjónsson):

Þegar þetta mál var hjer síðast til umræðu, þótti sumum það ekki koma greinilega fram í umræðunum, hver munur er á frv. stjórnarinnar og brtt. nefndarinnar. Jeg vil nú gera eina tilraun enn til að skýra muninn á frv. og brtt.

Eins og háttv. þm. vita, þá eru uppi hjer á þingi tvær ólíkar stefnur í þessu máli; önnur stefnan vill láta veita styrki, og þeir fylgja frv., en hinir vilja veita lán, og þeirri leið fylgdi bjargráðanefndin í háttv. Nd, en till. hennar fjellu í Nd. með litlum atkvæðamun.

En í brtt. þeim, sem hjer er um að ræða, er reynt að finna samkomulagsleið milli þessara tveggja stefna. Jeg fyrir mitt leyti er fult svo velviljaður þeirri stefnu, er hæstv. stjórn hefir tekið og kemur fram í frv., styrkveitingastefnunni.

Jeg hefi ekki orðið annars var en að margir sæmilega stæðir menn gætu þegið bitlinga úr landssjóði klígjulaust, og sje ekki ástæðu til þess að ætla, að fátæklingar geri það síður. En jeg veit líka, að til eru margir menn, er vilja komast áfram á eigin ramleik og eigi vilja þurfa að þiggja styrk af opinberu fje, og því var það, að mjer og fleirum þótti rjett, að lánaleiðin væri líka opin, svo að báðar leiðir væru til.

Í öðru lagi er hjer annar og stærri munur. í frv. er engin leið til að hjálpa þeim, sem mest þurfa hjálpar með. Jeg fyrir mitt leyti tel það hneyksli að samþykkja frv., sem svo er úr garði gert. Í frv. er sett það skilyrði fyrir hjálp úr landssjóði, að sveitarfjelögin leggi fram 2/3 af hjálpinni, en þar sem sveitarfjelagið getur hvorki hækkað útsvör nje tekið eða fengið lán, þá er ekki leyfilegt að hjálpa því eftir frv. Þau sveitarfjelög gætu má ske tekið hallærislán, en það má þá eins veita hallærislán í öðrum tilfellum og telja frv. gagnslaust kák.

Úr þessu hefir nefndin viljað bæta, en þá hefir það verið fundið að till nefndarinnar, að þær gengju of langt, svo að eigi væri hægt að segja um það fyrir, hversu mikið landssjóður þyrfti að leggja fram í þessu skyni. Bjargráðanefndin vildi treysta stjórninni til lánveitinganna, en stjórnin vill að þingið segi: Þetta má lána, en ekki meira.

Nú hefir nefndin rjett fram höndina til sátta við hæstv. stjórn og ber fram brtt. þá, sem prentuð er á þgskj. 335.

Þar er ákveðið, að hinn óafturkræfi styrkur úr landssjóði megi ekki nema meiru en 5 kr. á mann, og verður þá hæsta fjárveiting, er komið getur til greina úr landssjóði, 20 kr. á mann, 15 kr. lán og 5 kr. óafturkræfur styrkur, og næmi það, ef allir landsmenn þyrftu hjálpar, 1.800.000 kr., en vitanlega kemur aldrei til þess, bæði vegna þess, að ýms sveitarfjelög þurfa ekki hjálpar, og eins vegna þess, að ýms sveitarfjelög fengju lánið annarsstaðar en hjá landssjóði.

Jeg hefi nú gert grein fyrir muninum á frv. og brtt. nefndarinnar og vænti þess, að háttv. þm., er þeir athuga málið, sjái það heppilegast að greiða atkv. með brtt. nefndarinnar.