06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 817 í B-deild Alþingistíðinda. (810)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Eggert Pálsson:

Jeg hefi ekki ástæðu til að vera langorður; þarf að eins að svara nokkrum atriðum í ræðu háttv. þm. Ísaf. (M. T.).

Þm. (M. T.) vildi halda því fram, að það væri fjarstæða hjá mjer, að eins mætti fara með síldina og farið hafi verið með kjötið, jafna niður verðinu, svo að stórir og smáir framleiðendur fengju jafnt verð fyrir afurðir sínar.

Þessi aðferð gafst vel, að því er snerti kjötið, og bar ekki á neinni óánægju. Það virðist því líka ástæða til að halda, að hún gefist líka vel um síldina. Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) sagði reyndar, að sá væri munurinn, að síldin væri í sjónum en kjötið fyrirliggjandi. Jeg býst ekki við, að þær upplýsingar hans, að síldin sje í sjónum, mæti neinum andmælum, en hitt er ekki rjett, að kjötið sje fyrirliggjandi. Það þarf að leggja fram vinnu og fyrirhöfn til að framleiða það. Framleiðslunni fylgir einnig nokkur áhætta, svo að ómögulegt er að telja kjötið fyrirliggjandi fyr en á haustin, þegar búið er að slátra. Jeg held, ef sama regla væri höfð um síldina, sem höfð var um kjötið, mundi það koma í veg fyrir stórgróða-„spekúlationir“ kaupmanna, og auk þess lyfta undir smærri útgerðarmenn.

Háttv. þm. Ísaf. (M. T.) vjek að þeim ummælum mínum, að jeg vildi gjarnan eiga við hann eftirkaup í einkaviðskiftum, en síður í pólitík, og fjekk út úr því, að hann hlyti þá að vera betri þingmaður en jeg. Jeg hjelt satt að segja, að það væri frumskilyrði fyrir að standa vel í hverri stöðu, sem vera skal, og þá líka þingmannsstöðu, að hægt sje að reiða sig á mann; sá væri því besti þingmaðurinn, sem öruggast væri að treysta. Jeg skal ekki draga í efa þingmenskuhæfileika háttv. þm. Ísaf. (M T.), en hann hefði þá ekki átt að fara rangt með það, að enginn hafi hreyft síldartollsmálinu á aðalþingi 1917. Jeg hefi hjer í höndum frv. um toll á síld á þgskj. 217, sem borið var fram í háttv. neðri deild á þinginu í fyrra, en ekki afgreitt, og liggur því fyrir þinginu enn óútrætt.

Þau ummæli sama háttv. þm. (M. T.) voru óþörf, að jeg hafi minna grætt um æfina af því að jeg hafi engu vogað; jeg segi óþörf, því að svona einkamál ættu ekki að berast í tal á þingfundum, og það því síður, sem jeg hygg, að háttv. þm. (M. T.) hafi aldrei heyrt mig berja mjer, nje heldur aðra, er til þykjast þekkja, gera lítið úr efnum mínum. Hins vegar er mjer kunnugt, að hattv. þm. Ísaf. (M. T.) var talinu efnabóndi meðan hann var samsýslungur minn þar austur frá, þótt ekki leggi hann þá meira í vogun en alment gerist. Hitt má hann best vita sjálfur, hvort hann hefir grætt mikið síðan hann fór að voga meiru en hann þá gerði.