06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 819 í B-deild Alþingistíðinda. (811)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Magnús Kristjánsson:

Jeg gæti látið hjá líða að taka til máls, þar sem ekki eitt einasta atriði í minni fyrri ræðu hefir verið hrakið. En þar sem 3 háttv. þm. og 2 hæstv. raðherrar hafa sýnt mjer þann sóma, að nefna mig, er mjer skylt að gjalda í sömu mynt.

Mjer þykir leitt, að hæstv. atvinnumálaráðherra er ekki viðstaddur, því að á honum ætla jeg að byrja. Hann sagði, að það Væri til ofmikils mælst af stjórninni að ætlast til, að hún væri búin að átta sig á málinu. Mjer finst það að vísu síst ofætlun, en fyrst svona er ástatt fyrir stjórninni, get jeg fallist á, að ekki verði nema ein umr. um málið í dag, og er mjer það þó þvert um geð. Það veldur og nokkru um, að nú mun háttv. 4. landsk. þm. (G. G.) vera horfinn frá því ráði, að hverfa af þingi á morgun. En þörfin fyrir fljóta og góða afgreiðslu er engu minni fyrir það, þótt þetta sje gefið eftir til samkomulags. Jeg vil þá um leið skora alvarlega á stjórnina, að gera nú þegar ráðstafanir til, að samningunum við Svía verði lokið svo fljótt sem unt er. Bið jeg háttv. samþingismenn mína að taka eftir þessari áskorun minni, og hæstv. fjármálaráðherra að flytja hana þeim ráðherrunum, sem fjarstaddir eru. Allur dráttur á samningslokum er ófyrirgefanlegur. Jeg held því fast fram, að samningar sjeu þegar sama sem fullgerðir, svo að það þurfi ekki nema eitt orð af hálfu stjórnarinnar til að fastbinda þá. Þegar búið er að binda þá að fullu, er ekki lengur hægt að vera með vöflur og vafninga með því yfirskyni, að alt sje í óvissu um síldarverð Svía.

Þá skal jeg víkja mjer að háttv. 1. þm. Rang. (E. P.). Hann var að kvarta undan vondri meðferð á sjer við síðustu umr. Það er að vísu óviðfeldið, er þung orð falla í garð þeirra, sem dauðir eru, en hann mátti sjer sjálfum um kenna, bæði dauða sinn og dóminn, sem hann fjekk, því að græðgin í honum var svo mikil, að hann talaði sig dauðan fyrir tímann, og gerði sig þar með óhæfan til andsvara. Eins mun nú vera ástatt um þm. (E. P.), og vil jeg því ekki eyða fleirum orðum um hann, því að jeg vil helst ekki tala um þá látnu, nema jeg hafi eitthvað gott um þá að segja.

Háttv. þm. Snæf. (H. St.) kemst jeg hjá að svara sjerstaklega. Skoðanir hans voru í svo nánu sambandi við skoðanir hæstv. fjármálaraðherra, að jeg get svarað þeim báðum í senn. Jeg skil ekki í því, að þeir skuli geta haft sig til að vera að margfullyrða það, að engin vissa sje enn fengin um það, hvaða verð Svíar gefi fyrir síldina, eða að það verði af nokkurri sölu þangað. (H. St.: Það er ekki búið að semja). Þetta er að vissu leyti rangt, því að fyrir stjórninni liggur ákveðið tilboð, sem ekki þarf annað en kveða já eða nei við. Jeg álít, að það tilboð standi enn og sje vel aðgengilegt. Þetta aðalatriði, sem andstæðingar þessa máls virðast byggja alt sitt á, áhættan, er því grýla og ekkert annað.

Vegna þessa vandræðaskrafs út af áhættunni, vil jeg enn minnast á eitt atriði, sem þó er svo augljóst, eins og flest annað, er snertir þetta mál, að leiðinlegt er að þurfa að vera að benda á það. Hver mundi áhætta landssjóðs verða, ef síldaraflinn yrði ekki meiri í ár en í fyrra? Ef ekki veiðist meira en 50 þús. tunnur, verður áhættan engin. Því minni sem aflinn verður því minni verður áhættan. En jeg fyrir mitt leyti vona, að aflinn verði sem mestur, því að jeg er sannfærður um, að það verður landssjóði og útgerðarmönnum til gróða, en ekki til taps.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði með fjálgleik og skáldlegri andagift um það, að jeg hefði haldið því fram, að jeg hefði betri skilning á þessu máli en hann. Það hefi jeg aldrei sagt, en ekki skal jeg þvertaka fyrir, að það verði álit mitt að lokinni umræðunni, ef ráðherrann heldur svo áfram málinu, sem hann hefir það upp tekið. Hann virtist hneykslast á því, að jeg sagði, að eintóm varfærni væri varhugaverð í þessu máli, því að viðsýni þurfi ekki síður við. Jeg endurtek það, að þröngsýnin er í þessu, eins og öllum stórmálum, það hættulegasta.

Eins og jeg hefi áður getið, mun jeg sætta mig við, að 3. umr. verði á reglulegum tíma. Vona jeg, að það verði til að gera menn betur sammála. Margur hefir sansast á rjett mál á skemri tíma. Er það og von mín að úrslit samninganna við Svía verði þingi og stjórn kunn, áður en vjer komum aftur á fund saman.