06.07.1918
Efri deild: 59. fundur, 29. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

109. mál, kaup landsstjórnarinnar á síld

Kristinn Daníelsson:

Jeg stend ekki upp til að lengja umr. um málið.

En jeg kann betur við, að skýra, hvað í atkvæði mínu felst. Jeg lít svo á, að niðurstaðan af umr. sje sú, að hjer sje um talsverða áhættu að ræða fyrir landssjóð, en hins vegar hafa háttv. flutningsmenn flutt fram mörg rök og sennileg, svo vandasamt væri að ganga móti málinu.

En þess verður vel að gæta að okkur ber fyrst skylda til að sjá um hag landssjóðs og vera góðir ráðsmenn hans, því er jeg í vafa hvernig jeg eigi að greiða málinu atkvæði. Jeg mun þó að sjálfsögðu greiða því atkvædi til 3. umr., en áskil mjer þó frjálst atkv.

Annars hafði jeg vænst þess, að mál þetta kæmi fyrst fram í Nd. og þykir miður að svo var eigi, því að sá er andi í löggjöf vorri, að slík stór fjármál sem þetta eigi fyrst að bera þar upp.

Jeg skal meðal annars benda á það, að ef nú svo færi, að málið yrði felt hjer, þá væri Nd. 2/3 hlutum þingsins fyrirmunað að athuga það og yrði það að teljast illa farið.

Gæti þá svo farið, að þótt jeg væri ragur við málið, að jeg greiddi því atkvæði við 3. umr.; einmitt til þess, að háttv. Nd. gefist kostur á að athuga það, og í þeirri von, að atriði, sem nú þykja óvís, yrðu upplýst betur, meðan hún hefði það til meðferðar.

Jeg skal svo ekki fara frekari orðum um málið.